Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir áætlanir um lofthreinsiver á Bakka, sem fyrirtækið Carbon Iceland kynnti í síðustu viku, ótengdar starfsemi PCC. „Þetta yrði viðbót og allt annars konar starfsemi,“ segir Kristján og að sveitarfélagið eigi nægt land á Bakka, 90 til 100 hektara, sem er enn óúthlutað til að byggja upp iðnað.

Samkvæmt Kristjáni fær bæjarstjórn Norðurþings reglulega heimsóknir frá staðarvalsráðgjöfum og fyrirtækjum og ýmis verkefni hafa verið til skoðunar á undanförnum árum. Verkefni Carbon Iceland er það fyrsta sem fær viljayfirlýsingu líkt og gefin var út í síðustu viku.

Kísilverið PCC stöðvaði framleiðslu tímabundið í júní og sagði upp nærri hundrað starfsmönnum, sem var mikið högg fyrir sveitarfélagið og íbúa þess. Kristján segir að PCC hafi kynnt fyrir bæjarstjórn að vonir stæðu til þess að geta hafið starfsemi að nýju í apríl á næsta ári.

Carbon Iceland hefur samið við kanadískt fyrirtæki um nýtingu tækni sem kallast „bein loftföngun“ (Direct Air Capture), til að vinna koltvísýring úr andrúmsloftinu. Miðað við áætlanir fyrirtækisins, 140 milljarða króna fjárfestingu og á bilinu 300 til 500 störf, er um mun stærra verkefni en kísilver PCC að ræða, þar sem eru nú um 120 starfsmenn. Enn liggur þó ekki fyrir greining á þessu, til dæmis hvernig störf sé um að ræða og hvenær stöðugildin myndu verða til.

„Ég er bjartsýnn á að þetta geti gengið eftir,“ segir Kristján, en ítrekar að verkefnið sé enn á fyrstu metrunum. Enn eigi eftir að gera fýsileika- og áreiðanleikakannanir á hvort það gangi upp. Bæjarstjórn hafi þó væntingar og muni aðstoða Carbon Iceland, til dæmis hvað varðar leyfamál, greiningu innviða og fleiri þætti.

„Starfsemi eins og þessi getur orðið mikil lyftistöng fyrir sveitarfélagið,“ segir Kristján. „Við í bæjarstjórn höfum verið í samtali við Landsvirkjun um áform á Bakka til lengri tíma. Að Bakki geti orðið vistvænn iðngarður til framtíðar. Okkur sýnist að verkefni sem þetta geti vel rúmast innan þess ramma sem verið er að búa til.“

Gangi áætlanir Carbon Iceland fullkomlega eftir, myndi uppbygging lofthreinsiversins hefjast árið 2023 og yrði það fullklárað 2025.