„Það hvort við séum á nagladekkjum eða ekki hefur í rauninni lítil áhrif á loftslagið en það hefur mikil áhrif á loftgæði,“ segir Birgir Urbancic Ásgeirsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Birgir flytur í dag opinn fyrirlestur um tengsl loftgæða og loftslagsbreytinga sem hann segir fólk oft rugla saman.

„Þetta eru í rauninni tvenns konar verkefni sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Birgir. „Annars vegar eru það gróðurhúsalofttegundirnar sem stuðla að hlýnun jarðar og er alltaf verið að tala um og hins vegar eru það loftgæðin, það hvernig staðan er til dæmis í Reykjavík í dag eða á morgun. Þetta er að hluta til tengt en að hluta til ekki.“

Tengjum frekar við loftgæði

Í fyrirlestrinum ætlar Birgir að skýra muninn á þessu tvennu á sem skýrastan hátt.

„Það sem snýr að loftgæðum er okkur mjög nærtækt. Það hversu mikið svifryk er í Reykjavík í dag hefur áhrif á okkur sjálf og heilsu barnanna okkar. Hitt er ekki jafn nálægt okkur,“ segir hann.

„Þó að loftslagsmálin séu mjög mikilvæg og afleiðingarnar mjög alvarlegar þá tengjum við ekki eins sterkt við það að hitinn á jörðinni sé að hækka með stormum og rigningum á ákveðnum stöðum og þurrkum á öðrum eins og það hvernig loftgæðin eru hjá okkur hér og nú,“ bætir Birgir við.

Þá segir hann slæm loftgæði staðbundnara vandamál en loftslagsvandann. „Ef það eru slæm loftgæði í Peking núna þá er það ekkert vandamál hérna en gróðurhúsalofttegundunum, sem hafa áhrif á loftslagið, þeim er alveg sama hvort þær eru í Peking, Mexíkó eða á Íslandi, það er heimsvandamál,“ segir hann og tekur dæmi um flugelda og áhrif þeirra á loftgæði.

„Það losar aðeins af gróðurhúsalofttegundum þegar við brennum flugelda en aðallega eru þetta loftmengunarefni sem hafa áhrif á loftgæðin en kosturinn við loftgæðamálin er sá að þau vara yfirleitt ekki lengi út af stökum atburði eins og flugeldanotkun,“ segir Birgir en mjög mikil loftmengun mælist á Íslandi á gamlárskvöld.

Oft þarf að velja á milli

Spurður að því hvort hægt sé að huga bæði að loftgæðum og loftslaginu á sama tíma segir Birgir svo vera. Upp komi þó aðstæður þar sem þurfi að velja á milli. „Til dæmis ef við horfum á eldsneyti,“ segir hann.

„Dísilbíll losar minna af gróðurhúsalofttegundum á hvern kílómetra en bensínbíll, en á sama tíma hefur hann verri áhrif á loftgæði og þá getur verið erfitt að velja á milli en þá gæti lausnin verið að keyra minna,“ segir hann og bætir við að besta lausnin felist í því að minnka neyslu og nýta hluti betur.

„Ef við getum stuðlað að minni framleiðslu og minni úrgangi eða breytt framleiðsluaðferðum þá er það gott fyrir bæði loftslagið og loftgæðin,“ segir Birgir. Fyrirlesturinn hefst klukkan korter yfir tólf og er í beinu streymi á Facebook-síðu Umhverfisstofnunar.