Banda­ríski herinn hefur skotið niður kín­verska njósna­loft­belginn sem svifið hefur yfir Banda­ríkjunum síðan á fimmtu­dag. CNN greinir frá.

Að sögn tals­manns banda­rískra yfir­valda gaf Joe Biden, for­seti Banda­ríkjanna, leyfi fyrir því að skjóta loft­belginn niður í gær eftir að hafa ráð­fært sig við varnar­mála­ráðu­neytið. Loft­belgurinn var þá á sveimi yfir strönd Norður- og Suður-Karó­línu fylkja í rúm­lega á­tján þúsund metra hæð. Áður en loft­belgurinn var skotinn niður var öll flug­um­ferð á nær­liggjandi flug­völlum stöðvuð.

Loft­belgurinn sást fyrst svífa yfir Montana í norður­hluta Banda­­ríkjanna á fimmtu­dag. Kín­verjar hafa viður­­kennt að loft­belgurinn sé frá þeim kominn en segja hann vera veður­belg sem hafi villst af leið sinni vegna ó­­væntra vinda. Full­­trúi utan­­­ríkis­ráðu­neytis Kína sagðist harma það að belgurinn hefði fyrir slysni ratað inn í banda­ríska loft­helgi.

Kín­verjar hafa brugðist við á­kvörðun banda­rískra yfir­valda að skjóta loft­belginn niður og segjast „á­skilja sér rétt sinn til þess að nota allar þær að­ferðir sem reynast nauð­syn­legar ef slík staða kemur upp aftur.“

„Banda­ríkin notuðu mann­afla sinn til þess að ráðast á ó­mannað loft­far, sem að okkar mati eru allt of harka­leg við­brögð. Við mót­mælum harka­lega þessum verknaði af hálfu Banda­ríkjanna,“ segir Tan Kefei, tals­maður kín­verska varnar­mála­ráðu­neytisins.

Banda­ríski herinn og land­helgis­gæslan kemba nú svæðið í leit að braki úr loft­belgnum.