Bandaríski herinn hefur skotið niður kínverska njósnaloftbelginn sem svifið hefur yfir Bandaríkjunum síðan á fimmtudag. CNN greinir frá.
Að sögn talsmanns bandarískra yfirvalda gaf Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, leyfi fyrir því að skjóta loftbelginn niður í gær eftir að hafa ráðfært sig við varnarmálaráðuneytið. Loftbelgurinn var þá á sveimi yfir strönd Norður- og Suður-Karólínu fylkja í rúmlega átján þúsund metra hæð. Áður en loftbelgurinn var skotinn niður var öll flugumferð á nærliggjandi flugvöllum stöðvuð.
Loftbelgurinn sást fyrst svífa yfir Montana í norðurhluta Bandaríkjanna á fimmtudag. Kínverjar hafa viðurkennt að loftbelgurinn sé frá þeim kominn en segja hann vera veðurbelg sem hafi villst af leið sinni vegna óvæntra vinda. Fulltrúi utanríkisráðuneytis Kína sagðist harma það að belgurinn hefði fyrir slysni ratað inn í bandaríska lofthelgi.
Kínverjar hafa brugðist við ákvörðun bandarískra yfirvalda að skjóta loftbelginn niður og segjast „áskilja sér rétt sinn til þess að nota allar þær aðferðir sem reynast nauðsynlegar ef slík staða kemur upp aftur.“
„Bandaríkin notuðu mannafla sinn til þess að ráðast á ómannað loftfar, sem að okkar mati eru allt of harkaleg viðbrögð. Við mótmælum harkalega þessum verknaði af hálfu Bandaríkjanna,“ segir Tan Kefei, talsmaður kínverska varnarmálaráðuneytisins.
Bandaríski herinn og landhelgisgæslan kemba nú svæðið í leit að braki úr loftbelgnum.
First close-up video of the Chinese spy balloon being shot down (music was added by the original author) pic.twitter.com/6pI9an2RKX
— BNO News Live (@BNODesk) February 4, 2023