Vísindamenn hafa komist að því að loftsteinabrot sem fundust í Sahara eyðimörkinni í Alsír á síðasta ári séu 4,56 milljarða ára gömul sem gerir þau eldri en sjálf jörðin sem er um það bil 4,54 milljarða ára.
Niðurstöður þessara rannsókna voru birtar í vísindatímaritinu PNAS í mánuðinum.
Lofsteinninn, sem er kallaður Erg Chech 002 eftir svæðinu þar sem hann uppgötvaðist, kemur frá svokallaðri frumplánetu frá árdögum sólkerfisins þegar pláneturnar voru að mótast. Frumplánetan þaðan sem hann átti uppruna sinn sundraðist annað hvort í árekstri við aðra berghnetti eða sameinaðist þeim og varð hluti af byggingarefni annarrar plánetu.
Lofsteinabrotin eru samsett úr bergtegundinni andesít, eldfjallagrjóti sem kemur gjarnan upp sem hraun og gjóska í eldgosum, en slíkt grjót kom meðal annars upp í gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010.

Frumstæðasta brot af berghnetti sem fundist hefur
„Þetta brot er þá elsta þekkta brotið af eldfjallaskorpu eða hrauni sem tilheyrði hnetti sem er ekki lengur til. Við vitum að sólkerfið okkar var fullt af slíkum hnöttum í árdaga sem síðan skullu á plánetunum og tunglum og mynduðu gíga þar,“ segir Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðingur og vísindamiðlari.
Sævar Helgi segir það merkilegasta við lofsteinabrotið vera að það er „frumstæðasta brotið af berghnetti sem fundist hefur hingað til og líklegast frá þeim tíma þegar pláneturnar voru að mótast.“
Loftsteinabrotin uppgötvuðust í maí 2020 í Erg Chech sandhafinu í Suður-Alsír. Brotunum er lýst sem grófmynstruðum með gulbrúnni og drapplitaðri áferð með grænum, gulgrænum og gulbrúnum kristölum á víð og dreif.