Donald Trump tók formlega við tilnefningu Repúblikana til forseta Bandaríkjanna á síðasta degi landsfundar flokksins í gær en rúmir tveir mánuðir eru nú í að forsetakosningarnar fara fram þar sem Trump fer upp á móti Joe Biden, forsetaframbjóðanda Demókrata. Trump ávarpaði þjóðina við Hvíta húsið í gær þegar hann tók við tilnefningunni en ræða hans stóð yfir í rúman klukkutíma.
Trump hóf ræðu sína með því að lofa því að Repúblikanar kæmu til með að byggja upp efnahag Bandaríkjanna á ný eftir kórónaveirufaraldurinn og hét því að hann myndi halda áfram að vernda Bandaríkin fyrir hvers konar ógnum. Þá sagði hann að Bandaríkin kæmu áfram til með að vera leiðandi í framförum svo að allir Bandaríkjamenn gætu fyllst stolti.
Varaði við „sósíalískri stefnu“ Demókrata
Líkt og aðrir ræðumenn á landsfundinum ítrekaði Trump mikilvægi komandi kosninga og varaði við því að Demókratar kæmust til valda en hann sakaði Demókrata um að rífa niður Bandaríkin. Hann sagði Demókrata hafa orðið til þess að óeirðir hafi brotist út í Bandaríkjunum og vísaði þar til mótmæla fólks samfélaginu um kerfislægar breytingar þegar kemur að kynþáttamismunun.
„Allt sem við höfum áorkað er nú í hættu. Þetta eru mikilvægustu kosningarnar í sögu Bandaríkjanna,“ sagði Trump og bætti við að valið milli forsetaframbjóðanda væri skýrt. „Þessar kosningar munu ákveða hvort við björgum bandaríska drauminum eða hvort við leyfum sósíalískri stefnu að rífa niður örlög okkar, sem eru okkur svo kær.“
Forsetinn lauk máli sínu með því að lofa að hann kæmi meðal annars til með að skera niður skatta, skapa 10 milljón störf á næstu tíu mánuðum, styrkja landamæri, tryggja aðgang allra Bandaríkjamanna að heilbrigðiskerfinu, ná framförum í tæknimálum, og að sameina Bandaríkin. „Fyrir Bandaríkin er ekkert ómögulegt,“ sagði Trump og bætti við að hann kæmi til með að gera Bandaríkin sterkari, stoltari og betri en áður fyrr.
Biden og Harris svara í sömu mynt
Trump tók mótframbjóðanda sinn, Joe Biden, sérstaklega fyrir en hann sagði Biden hafa eytt áratugalöngum ferli sínum í stjórnmálum í að koma í veg fyrir atvinnutækifæri Bandaríkjamanna og að senda börn þeirra í stríð á erlendri grundu. Þá tók hann undir ummæli Mike Pence frá því í gær þar sem hann sagði Biden vera „trójuhest fyrir sósíalisma.“
When Donald Trump says tonight you won’t be safe in Joe Biden’s America, look around and ask yourself: How safe do you feel in Donald Trump’s America?
— Joe Biden (@JoeBiden) August 28, 2020
Biden svaraði þó ásökunum Trumps um að „Bandaríki Bidens“ væru ekki öruggur staður á Twitter í gærkvöldi. „Þegar Donald Trump segir að þið verðið ekki örugg í Bandaríkjum Joe Bidens, horfið í kringum ykkur og spurjið: Hversu örugg upplifið þið ykkur í Bandaríkjum Donald Trumps?“
Kamala Harris, varaforsetaframbjóðandi Demókrata, tók í svipaða strengi fyrr um kvöldið þar sem hún sagði Trump ekki skilja hvað felist í því að vera forseti. „Donald Trump hefur mistekist þegar kemur að einfaldasta og mikilvægasta þætti starfs forseta Bandaríkjanna. Honum mistókst að vernda bandarísku þjóðina, svo einfalt er það.“
Forsetakosningarnar fara fram þriðjudaginn 3. nóvember en eins og staðan er í dag er Biden að mælast sterkari í kosningum en það gæti þó allt breyst á komandi vikum.