Donald Trump tók form­lega við til­nefningu Repúblikana til for­seta Banda­ríkjanna á síðasta degi lands­fundar flokksins í gær en rúmir tveir mánuðir eru nú í að for­seta­kosningarnar fara fram þar sem Trump fer upp á móti Joe Biden, for­seta­fram­bjóðanda Demó­krata. Trump á­varpaði þjóðina við Hvíta húsið í gær þegar hann tók við til­nefningunni en ræða hans stóð yfir í rúman klukku­tíma.

Trump hóf ræðu sína með því að lofa því að Repúblikanar kæmu til með að byggja upp efna­hag Banda­ríkjanna á ný eftir kóróna­veirufar­aldurinn og hét því að hann myndi halda á­fram að vernda Banda­ríkin fyrir hvers konar ógnum. Þá sagði hann að Banda­ríkin kæmu á­fram til með að vera leiðandi í fram­förum svo að allir Banda­ríkja­menn gætu fyllst stolti.

Varaði við „sósíalískri stefnu“ Demókrata

Líkt og aðrir ræðu­menn á lands­fundinum í­trekaði Trump mikil­vægi komandi kosninga og varaði við því að Demó­kratar kæmust til valda en hann sakaði Demó­krata um að rífa niður Banda­ríkin. Hann sagði Demó­krata hafa orðið til þess að ó­eirðir hafi brotist út í Banda­ríkjunum og vísaði þar til mót­mæla fólks sam­fé­laginu um kerfis­lægar breytingar þegar kemur að kyn­þátta­mis­munun.

„Allt sem við höfum á­orkað er nú í hættu. Þetta eru mikil­vægustu kosningarnar í sögu Banda­ríkjanna,“ sagði Trump og bætti við að valið milli for­seta­fram­bjóðanda væri skýrt. „Þessar kosningar munu á­kveða hvort við björgum banda­ríska drauminum eða hvort við leyfum sósíalískri stefnu að rífa niður ör­lög okkar, sem eru okkur svo kær.“

For­setinn lauk máli sínu með því að lofa að hann kæmi meðal annars til með að skera niður skatta, skapa 10 milljón störf á næstu tíu mánuðum, styrkja landa­mæri, tryggja að­gang allra Banda­ríkja­manna að heil­brigðis­kerfinu, ná fram­förum í tækni­málum, og að sam­eina Banda­ríkin. „Fyrir Banda­ríkin er ekkert ó­mögu­legt,“ sagði Trump og bætti við að hann kæmi til með að gera Banda­ríkin sterkari, stoltari og betri en áður fyrr.

Biden og Harris svara í sömu mynt

Trump tók mót­fram­bjóðanda sinn, Joe Biden, sér­stak­lega fyrir en hann sagði Biden hafa eytt ára­tuga­löngum ferli sínum í stjórn­málum í að koma í veg fyrir at­vinnu­tæki­færi Banda­ríkja­manna og að senda börn þeirra í stríð á er­lendri grundu. Þá tók hann undir um­mæli Mike Pence frá því í gær þar sem hann sagði Biden vera „tróju­hest fyrir sósíal­isma.“

Biden svaraði þó á­sökunum Trumps um að „Banda­ríki Bidens“ væru ekki öruggur staður á Twitter í gær­kvöldi. „Þegar Donald Trump segir að þið verðið ekki örugg í Banda­ríkjum Joe Bidens, horfið í kringum ykkur og spur­jið: Hversu örugg upp­lifið þið ykkur í Banda­ríkjum Donald Trumps?“

Kamala Har­ris, vara­for­seta­fram­bjóðandi Demó­krata, tók í svipaða strengi fyrr um kvöldið þar sem hún sagði Trump ekki skilja hvað felist í því að vera for­seti. „Donald Trump hefur mis­tekist þegar kemur að ein­faldasta og mikil­vægasta þætti starfs for­seta Banda­ríkjanna. Honum mis­tókst að vernda banda­rísku þjóðina, svo ein­falt er það.“

For­seta­kosningarnar fara fram þriðju­daginn 3. nóvember en eins og staðan er í dag er Biden að mælast sterkari í kosningum en það gæti þó allt breyst á komandi vikum.