Landsfundi Demókrata lauk í nótt með ávarpi Joe Biden, forsetaframbjóðanda Demóktata, en landsfundurinn hefur staðið yfir síðastliðna fjóra daga og fjölmargir ræðumenn tekið til máls. Í ávarpi sínu í gær hét Biden því að sem forseti myndi hann draga fram það besta sem Bandaríkin hafa fram að færa
„Núverandi forseti hefur haldið Bandaríkjunum í myrkrinu of lengi. Of mikil reiði. Of mikill ótti. Of mikill klofningur,“ sagði Biden en hann sagðist ætla að vera forseti þeirra sem styðja hann ekki jafnt og þeirra sem styðja hann. „Það er kominn tími til að við tökum höndum saman.“
Biden sagði enn fremur að sem forseti kæmi hann til með að bæta efnahagsmál, bregðast við kröfum um kerfislægar breytingar og bregðast hratt og vel við kórónaveirufaraldrinum. „Sem forseti þá lofa ég ykkur þessu; Ég mun vernda Bandaríkin. Ég mun verja okkur fyrir hverri árás, hvort sem við sjáum hana eða ekki. Alltaf, án undantekninga, í hvert einasta skipti.“
May history be able to say that the end of this chapter of American darkness began here, tonight as love and hope and light joined the battle for the soul of the nation. pic.twitter.com/Pdk8c75ATr
— Joe Biden (@JoeBiden) August 21, 2020
Viðburðarrík vika
Biden tók formlega við tilnefningu Demókrata á þriðjudaginn á meðan Kamala Harris tók við tilnefningu flokksins til varaforseta á miðvikudaginn. Aðrir sem höfðu sóst eftir tilnefningu Demókrata, til að mynda Bernie Sanders og Elizabeth Warren, lýstu yfir stuðningi við Biden á meðan landsfundinum stóð.
Síðastliðna fjóra daga hafa þó nokkrir stjórnmálamenn, bæði Demókratar og Repúblikanar, komið fram á landsfundinum og ítrekað mikilvægi komandi kosninga en forsetakosningarnar fara fram 3. nóvember næstkomandi. Eins og staðan er í dag er Biden að mælast töluvert sterkari í könnunum en enn er þó nægur tími í kosningar.
Gagnrýndi viðbrögð Hvíta hússins
Michelle Obama, fyrrum forsetafrú, var með lykilávarp á fyrsta deginum en þar ítrekaði hún mikilvægi samstöðu, sem flestir aðrir ræðumenn tóku undir. „Hvenær sem við lítum til Hvíta hússins fyrir forystu, hughreystingu eða vott af stöðugleika, þá fáum við í staðinn óreiðu, sundrun og algjöran skort á samkennd,“ sagði hún.
Aðrir ræðumenn á fyrsta deginum voru öldungadeildarþingmennirnir Amy Klobuchar, Catherine Cortez Masto, Doug Jones og Bernie Sanders, fulltrúadeildarþingmennirnir Jim Clyburn og Gwen Moore, og ríkisstjórarnir Gretchen Whitmer og Andrew Cuomo. Tveir Repúblikanar komu einnig fram, fyrrverandi ríkisstjóri Ohio, John Kasich, og fyrrum ríkisstjóri New Jersey, Christine Todd Whitman.
Bað fólk um að trúa á Joe
Jill Biden var síðan með lykilávarp á öðrum degi fundarins þegar eiginmaður hennar tók við tilnefningunni. „Ég veit að ef við treystum Joe fyrir þessari þjóð, þá mun hann gera fyrir ykkar fjölskyldur það sem hann gerði fyrir okkar; færa okkur saman og gera okkur að einni heild,“ sagði hún.
Aðrir ræðumenn á öðrum degi voru ýmsir þingmenn og ráðherrar, til að mynda fyrrum dómsmálaráðherra, Sally Yates, leiðtogi Demókrata í öldungardeildinni, Chuck Schumer, fyrrum utanríkisráðherra, John Kerry, og fulltrúardeildarþingmaðurinn Alexandria Ocasio-Cortez. Fyrrum Bandaríkjaforsetarnir Bill Clinton og Jimmy Carter voru sömuleiðis með erindi.
Lögðu áherslu á gildi forseta
Á þriðja degi fundarins var Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseti, með lykilávarpið þar sem hann ítrekaði mikilvægi góðs forseta „Við ættum að búast við því að óháð hans sjálfsáliti, metnaðargirni eða stjórnmálaskoðunum, muni forsetinn varðveita, vernda og verja það frelsi og þær hugsjónir sem svo margir Bandaríkjamenn kröfðust og fóru í fangelsi fyrir, börðust fyrir og dóu fyrir,“ sagði hann.
Þá var Hillary Clinton, fyrrum utanríkisráðherra og forsetaframbjóðandi, með erindi þar sem hún lýsti sinni reynslu af Trump og hvatti fólk til að mæta á kjörstað. Aðrir ræðumenn þriðja dagsins voru meðal annars öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren, og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi.
Trump harðlega gagnrýndur
Helsta þema fundarins var samstaða en flestir ræðumenn ítrekuðu mikilvægi þess að mæta á kjörstað til þess að tryggja bætta framtíð. Þá fékk Donald Trump Bandaríkjaforseti verulega slæma útreið á fundinum þar sem viðbrögð hans við kórónaveirufaraldrinum og kröfum um breytingar frá samfélagshreyfingum á borð við Black Lives Matter voru harðlega gagnrýnd.
Repúblikanar eyddu miklu púðri í að reyna að skyggja á landsfundinn en þeir höfðu skipulagt auglýsingaherferð á vinsælustu vefmiðlum Bandaríkjanna sem og á streymisveirunum YouTube og Hulu. Þá höfðu þau skipulagt baráttufundi í mikilvægum ríkjum á meðan fundinum stóð.
Svarar í sömu mynt
Trump lét einnig í sér heyra á samfélagsmiðlum á borð við Twitter þar sem hann beindi skotum sínum sérstaklega að Joe Biden, Barack Obama og Hillary Clinton og deildi áróðursmyndböndum um þau. Þá sagði hann í einni færslu að á 47 ára ferli Biden hafi hann ekki staðið við neitt af því sem hann hafi sagt.
Næstkomandi mánudag fer fram landsfundur Repúblikana þar sem Donald Trump tekur formlega við tilnefningu Repúblikana til forseta og Mike Pence tekur við tilnefningu flokksins til varaforseta. Fundurinn fer fram í Charlotte í Norður-Karólínu en vegna kórónaveirufaraldursins verður aðgengi takmarkað og verður streymt frá fundinum á netinu.
AMERICA FIRST! #MAGA pic.twitter.com/Zt3I9RvMjX
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 20, 2020