Skóla- og frístundaráð kom saman í morgun á aukafundi til að ræða dagvistunarmál. Formaður segir að á fundi borgarráðs á morgun verði nýjar tillögur kynntar sem eru bæði til bráðabirgða og til langs tíma en eiga að koma til móts við þá foreldra sem ekki hafa fengið vistun fyrir börn sín.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir að gert sé ráð fyrir því að taka inn 370 börn af biðlista fyrir áramót en að eins og staðan er núna eru 200 leikskólapláss sem ekki er hægt að nýta vegna manneklu. Enn á eftir að fylla 171 stöðu. Flokkurinn lagði fram tillögur á fundi ráðsins sem hún vonast til þess að borgarráð taki til skoðunar á morgun.

Verða með svörin á morgun

Árelía Ey­dís Guð­munds­dóttir, borgar­full­trúi Fram­sóknar og for­maður skóla- og frí­stunda­ráðs, segir að starfs­fólk borgarinnar hafi unnið baki brotnu síðustu daga við að finna lausnir handa for­eldrum sem ekki hafa fengið dagvistun fyrir börn sín. Hún segir að stýri­hópurinn Brúum bilið, sem heyri undir borgar­stjóra, hafi það verk­efni að búa til leik­skóla­pláss og að þau hafi fundað dag­lega síðustu daga.

„Við erum öll í sama báti að róa að því að vinna þannig að við getum verið með skýrar væntingar til for­eldra sem bíða svara,“ segir Árelía í sam­tali við Frétta­blaðið eftir fund skóla- og frí­stunda­ráðs fyrr í morgun.

Sem verða hér á morgun í hústöku­leik­skóla?

„Já, og hér verðum við með svörin,“ segir Árelía og að þau hafi ekki viljað segja frá því fyrr en að allt sé stað­fest.

Hún segir að for­eldrar hafi verið boðaðir á sam­ráðs­fund síðar í dag þar sem þau munu geta farið yfir þær til­lögur sem snúa að þeim.

„Ég vona að borgar­búar, og sér­stak­lega for­eldrar í þessari stöðu, beri til okkar traust og skilji að það þarf að fara yfir stöðuna á mjög mörgum sviðum,“ segir Árelía og nefnir fjár­hags-, skipu­lags- og heil­brigðis­svið.

„Það eru allir að vinna vinnuna sína til að tryggja öryggi barna og að fag­legt starf sé í fyrir­rúmi. Við viljum ekki koma með til­lögurnar fram fyrr en þær eru full­mótaðar,“ segir Árelía.

Árelía Eydís tók við formennsku í ráðinu eftir kosningar í vor.
Fréttablaðið/Ernir

Þú getur ekkert sagt um inni­hald til­lagnanna en geturðu sagt mér hvort þetta séu nýjar lausnir?

„Þetta eru nýjar lausnir í á­standinu sem er núna. Að hluta til eru þetta gamal­reyndar lausnir en það verður að blanda þessu saman,“ segir Árelía og að það verði að hugsa bæði til skamms og langs tíma.

„Það er rosa­lega mikil­vægt að við gerum okkur grein fyrir því að frá því að stýri­hópurinn tók til starfa árið 2018 hefur fjölgun barna verið gríðar­leg,“ segir Árelía og að það sé bland af því að Ís­lendingar hafi eignast fleiri börn og að er­lendum ríkis­borgurum hefur fjölgað.

Spurð hvort það komi til greina að auka gagn­sæi bið­listans og koma honum á vef borgarinnar segir Árelía að það sé í sam­ræmi við stefnu borgarinnar um að auka staf­rænt gagn­sæi.

„Auð­vitað viljum við hafa stjórn­borð. Svo það aug­ljóst fyrir okkur pólitíkusa og fólk sem þarf að nýta þetta er rosa­lega mikil­vægt að þessar upp­lýsingar séu gagn­sæjar,“ og að það verði unnið að því að koma því á fót.

Skúli Helgason leiðir vinnu stýrihópsins Brúum bilið. Hann var áður formaður skóla- og frístundaráðs.
Fréttablaðið/Ernir

Nýtist þeim sem eru komin með pláss og þeim á biðlista

„Fundurinn var helgaður stöðu leik­skóla­mála, bæði skýringar á því af hverju við erum þar sem við erum og um­fram allt um­ræða um hvernig við ætlum að bregðast við,“ segir Skúli Helga­son, for­maður stýri­hópsins Brúum bilið og borgar­full­trúi Sam­fylkingarinnar, í sam­tali við Frétta­blaðið eftir fund skóla- og frí­stunda­ráðs í morgun en þar voru ræddar nýjar til­lögur sem eiga að koma til móts við þarfir og væntingar for­eldra sem höfðu „rétt­mætar væntingar“ um að koma börnum sínum að fyrr að sögn Skúla.

Til­lögurnar verða kynntar í borgar­ráði á morgun og eru trúnaða­mál þar til þá en Skúli sagði að það hefði verið á­nægju­legt hversu mikill sam­hljómur var á meðal þeirra sem sátu fundinn óháð pólitískum fylkingum.

„Það voru líka kynntar til­lögur frá Sjálf­stæðis­flokki sem mér finnst eiga skilið að fá mjög já­kvæða rýni og það er sam­merkt með bæði til­lögurnar frá okkur og þeim að þetta er á al­mennu formi,“ segir Skúli og að það eigi eftir að á­lags­prófa, á­hættu­meta og kostnaðar­meta til­lögurnar.

„En þarna eru hlutir sem ég held að geti skipt veru­legu máli og hjálpað for­eldrum í þeirra stöðu,“ segir Skúli.

Þetta eru nýjar lausnir? Eitt­hvað sem ekki hefur verið kynnt áður?

„Já, þetta eru nýjar til­lögur. Sumt er til bráða­birgða, til að mæta þörfum for­eldra sem hafa orðið fyrir töfum, til að reyna að létta undir með þeim og minnka ó­vissuna,“ segir Skúli en að einnig sé um að ræða ný verk­efni sem nýtist til lengri tíma.

Nýtist þetta bæði þeim sem eru komin með pláss og bíða og þeim sem eru á bið­lista?

„Já, ég myndi segja að þetta nýtist báðum hópum.“

Marta Guðjónsdóttir vonar að tillögur Sjálfstæðisflokksins verði teknar til greina á fundi borgarráðs á morgun.
Fréttablaðið/Ernir

Meðalaldur barna 14 til 15 mánaða

Marta Guð­jóns­dóttir, borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, segir að til­lögur Sjálf­stæðis­flokksins hafi ekki verið sam­þykktar en að þeim hafi verið vísað til borgar­ráðs. Hún segir að vegna tækni­legra á­stæða sé þó ó­ljóst hvort þær rati á fund ráðsins á morgun.

„Það þarf að leggja fram tveimur sólar­hringum áður en við erum að vona að þær verði teknar inn með af­brigðum,“ segir Marta.

Hún segir að á fundinum hafi þau þó fengið svör við fyrir­spurnum sem þau lögðu fram í vor um stöðu bið­lista og manna­ráðningar.

„Það mun ekki nást að upp­fylla lof­orð um inn­töku frá tólf mánaða heldur mun meðal­aldur um ára­mót vera 14 eða 15 mánaða og ekki er hægt að ráða í 171 stöðu­gildi sem þýðir að ekki er hægt að nýta 200 pláss sem þegar eru laus í leik­skólum borgarinnar,“ segir Marta og að alls séu um 800 börn á bið­lista og fram að ára­mótum sé gert ráð fyrir því að 370 þeirra fái inn á leik­skóla.

„En það mun ekki ganga eftir að brúa bilið á milli fæðingar­or­lofs og leik­skóla því meðal­aldur þeirra verður 14 eða 15 mánaða.“

Væntirðu þess að for­eldrar fái ein­hver svör á morgun?

„Ég vona það. Staðan er dapur­leg þegar bráða­birgða­úr­ræði eins og Ævin­týra­borgir ganga ekki eftir og mis­takast þannig það er verið að bjóða börnum leik­skóla­vist eða pláss sem ekki eru til­tæki og ekki full­búnir.“