Kvik­myndin Mamma Mia! Here we go again var tekju­hæsta kvik­mynd ársins 2018 með tæpar 96,3 milljónir króna í tekjur. Næst­hæst var mynd Bald­vins Z, Lof mér að falla, með um 87 milljónir króna. Ís­lenska bíó­á­rið var mjög gott því ís­lenskar kvik­myndir höluðu inn um 240 milljónum króna og eru fjórar ís­lenskar kvik­myndir a lista yfir tuttugu vin­sælustu myndir ársins. 

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri töl­fræði frá FRÍSK, Fé­lagi rétt­hafa í sjón­varps- og kvik­mynda­iðnaði. Þar segir að sam­tals hafi 79.861 séð Mamma Mia, en fyrri myndin, sem kom út árið 2008, hafi einnig verið fjöl­sóttasta mynd þess árs, þegar 119 þúsund manns börðu hana augum í ís­lenskum kvik­mynda­húsum. 

Aðsóknarmest og önnur tekjuhæst

Tæp­lega 53 þúsund manns keyptu sig inn á Lof mér að falla og er sú mynd að­sóknar­mesta ís­lenska kvik­myndin síðan Svartur á leik var sýnd í bíó árið 2012. Hún er jafn­framt önnur tekju­hæsta ís­lenska mynd sögunnar, ef ekki er tekið mið af nú­virði eldri kvik­mynda. 

Sjá einnig: „Rændi, braust inn og seldi allar eigur mínar“

Hlut­fall ís­lenskra kvik­mynda var 13,3 prósent af tekjum kvik­mynda­húsanna, sem er besti árangur ís­lenskra kvik­mynda síðan árið 2014, sem þá var einnig 13,3 prósent. Aðrar myndir gerðu það gott því fjórar ís­lenskar kvikmyndir eru á meðal tuttugu fjöl­sóttustu kvik­mynda ársins. 

Víti í Vestmannaeyjum með tæpar 50 milljónir Víti í Vest­manna­eyjum var níunda vin­sælasta mynd ársins með tekjur upp á 47,7 milljónir og 35.465 gesti. Teikni­myndin Lói – þú flýgur aldrei einn var fimm­tánda vin­sælasta myndin með tekjur upp á 29,9 milljónir og 24.185 gesti. Þá var Kona fer í stríð í sex­tánda sæti með tæpar 29,4 milljónir í tekjur og 19.908 gesti. Sex­tán ís­lenskar kvik­myndir og heimildar­myndir voru sýndar í bíó­húsum árið 2018, einni færri en í fyrra. 

Þá var hlutur banda­rískra kvik­mynda á markaðnum sam­bæri­legur og árið á undan eða 84,3 prósent af tekjum. Pólskar myndir náðu mestri að­sókn, á eftir þeim banda­rísku og ís­lensku. Alls voru 169 myndir teknar til al­mennra sýninga í bíó­húsum, sem er þremur færri en árið á undan, að því er segir í saman­tekt frá FRÍSK.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir tuttugu vinsælustu myndir ársins.