Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu segir að hún hafi þurft að bregðast við með þeim hætti sem hún gerði á mót­mælum hælis­leit­enda á Austur­velli í gær þar sem mót­mælendur hafi ó­hlýðnast fyrir­mælum og framið skemmdar­verk. 

Í til­kynningu sem lög­reglan sendi frá sér fyrir skömmu segir að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir mót­mælunum. „Mót­mælendur settu engu að síður upp tjöld og mynduðu skjald­borg í kringum þau. Lög­reglan gerði mót­mælendunum grein fyrir því að þeir gætu ekki tjaldað á Austur­velli án leyfis. Lög­reglu­menn tóku því tjöldin og kom þá til stimpinga,“ segir í til­kynningunni. 

Ávallt reiðubúin til að taka gagnrýni

Á sjöunda tímanum hafi lög­reglan lagt hald á pappa­spjöld og vöru­bretti og talið að verið væri að hlaða í bál­köst. „Mót­mælendurnir reyndu að verja spjöldin og brettin með því að leggjast ofan á þau. Þurfti lög­reglan þá að beita afli. Einn mót­mælandinn sparkaði í lög­reglu­þjón og var hann í kjöl­farið hand­tekinn. Annar mót­mælandi réðist þá að lög­reglu­þjóninum sem sá um hand­tökuna og var sá einnig hand­tekinn.“ 

Í kjöl­farið hafi þurft að beita pipar­úða þar sem litið var á að verið væri að ráðast á lög­regluna við skyldu­störf. „Lög­reglan óskaði um­svifa­laust eftir sjúkra­bíl til að vera til taks til að hjálpa fólkinu sem fyrir varð að hreinsa burt efnið og skola augu sín.“ 

Hinum hand­teknu, Íslendingi og hælisleitanda, var sleppt í gær­kvöldi að lokinni skýrslu­töku. Lög­reglan segist á­vallt reiðu­búin til að hlusta á gagn­rýni og að fram­ganga hennar sé sí­fellt til skoðunar. 

Mótmælendur haldi sig við friðsamlegar aðgerðir

„Það er skiljan­legt að það veki eftir­tekt þegar lög­regla neyðist til að verja sig með varnar­úða. Það er ekki með á­nægju sem slíkum með­ölum er beitt. Lög­reglan forðast þvert á móti í lengstu lög að fara vald­beitingar­leiðina. Þegar hins vegar mót­mæli færast yfir í skemmdar­verk eða ef mót­mælendur ó­hlýðnast beinum fyrir­mælum lög­reglu­manna eða ráðast gegn þeim við skyldu­störf þá er bæði öryggi bæði borgaranna og okkar sem störfum sem lög­reglu­menn, stefnt í hættu. Við því verður lög­reglan á­vallt að bregðast.“ 

Að lokum segir að flest mót­mæli hér á landi hafi farið vel fram og í góðri sam­vinnu lög­reglu, borgara og yfir­valda. Er það von lög­reglunnar að slíkt haldi á­fram og vonast eftir því að þurfa ekki að beita slíkum að­ferðum í dag og hún gerði í gær. 

„Lög­reglan er ekki and­stæðingur mót­mælenda. Hælis­leit­endur eru hópur í veikri stöðu, eins og lög­reglan þekkir sjálf vel til, en staða þeirra verður ekki bætt með því að efna til á­floga við lög­reglu. Lög­reglan biður mót­mælendur um að halda sig við frið­sam­legar að­gerðir og leggur á­herslu á að þeir fylgi fyrir­mælum lög­reglu á vett­vangi.“