Lögreglan á Suðurlandi telur sig vita hver var í bílnum sem talinn er hafa farið í Ölfusá um tíuleytið í kvöld.

Mikill viðbúnaður er á svæðinu þessa stundina. Allar björgunarsveitir Árnessýslu hafa verið kallaðar út og einhverjar af höfuðborgarsvæðinu. Búið er að lýsa upp staðinn með ljósabúnaði og þá eru lögreglumenn, sjúkraflutningafólk og þyrla Landhelgisgæslunnar á staðnum.

Lögregla segist hafa haft samband við fjölskyldu þess sem hún telur að hafi verið undir stýri. Bílför séu á vettvangi og þá hafi brak sést í ánni.

Viðbúið er að leitin muni halda áfram fram á nótt.