Tveir voru handteknir á mótmælum við Austurvöll fyrir skemmstu. Þá beitti lögregla piparúða á mótmælendur. Greint er frá þessu á Facebook-síðu skipuleggjenda mótmælanna, Refugees in Iceland eða Flóttafólk á Íslandi.

Um er að ræða fjórðu mótmælin á skömmum tíma þar sem flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi gagnrýna aðgerðarleysi stjórnvalda og krefjast þess meðal annars að fá að vinna og að dvalarstað þeirra í Ásbrú verði lokað. 

Hiti færðist í mótmælin þegar líða fór á kvöldið og beitti lögreglan piparúða á mótmælendur. Sem fyrr segir kemur fram á Facebook-síðunni Flóttafólk á Íslandi að tveir hafi verið handteknir, en það hefur þó ekki fengist staðfest hjá lögreglu. 

Sjá einnig: „Þetta er ekkert líf“

Á myndskeiði sem sjá má hér að neðan sést hvernig lögregla gerir pappaspjöld sem mótmælendur höfðu með í för upptæk.

Kröfur mótmælenda eru nokkrar, meðal annars að brottvísunum verði hætt og að hópurinn fái að vinna. Þá er þess krafist að hópurinn fái jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu á við aðra landsmenn og að allir fái réttláta málsmeðferð. 

Fyrir meira en tveimur vikum sendi hópurinn bréf þar sem Rauði kross Íslands var milliliður og báðu um fund með dómsmálaráðherra, forsætisráðherra, velferðarráðherra og Útlendingastofnun. Á fundinum vilja mótmælendur ræða þær ómannúðlegu aðstæður sem við hælisleitendur búa við og gera grein fyrir kröfum sínum. 

Mótmælin hafa staðið yfir frá því klukkan 15 og til stóð að elda klukkan 19.