Andri Gunnarsson, lögmaður og viðskiptafélagi Sigurðar Gísla Björnssonar, hefur réttarstöðu sakbornings í einu stærsta skattsvikamáli sem til rannsóknar hefur verið á Íslandi. Meint brot, vantalinn skattstofn, nemur 1,3 milljörðum króna. Þau munu hafa átt sér stað á árunum 2011 til 2016.

Húsleit var gerð á lögmannsskrifstofu Andra 2. maí síðastliðinn. Andri gerði þá kröfu við Landsrétt að hann þyrfti ekki að afhenda gögnin sem fundust í húsleitinni en á það féllst rétturinn ekki.

Fréttablaðið greindi frá því í janúar að húsleit hafi verið gerð á heimili Sigurðar Gísla, sem er framkvæmdastjóri fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks. Eignir hans voru kyrrsettar og bankareikningar haldlagðir. Andri er lögmaður Sigurðar Gísla.

Embætti skattrannsóknarstjóra hefur haft mál til meðferðar frá Panama-lekanum svokallaða, þar sem meðal annars kom fram að Sigurður Gísli hefði stofnað félagið Freezing Point Corp í Panama árið 2009, en eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er hann grunaður um skattsvik í gegnum fleiri en eitt félag. 

Ekki liggur fyrir hvort Sæmark tengist meintum skattalagabrotum. Félagið flytur út fisk og skilaði 29 milljóna króna hagnaði árið 2016. Tekjurnar námu 7,8 milljörðum króna.

Sigurður er einn eigenda fjárfestingarfélagsins Óskabeins sem
er meðal annars stór hluthafi í tryggingafélaginu VÍS og Kortaþjónustunni.