Logi Bergmann Eiðsson sjónvarpsmaður er nú að útskrifast sem stjórnmálafræðingur. Tuttugu og fimm árum eftir að hann hóf nám. Í lokaritgerð sinni bar hann saman leiðtoga stjórnmálaflokka og knattspyrnuþjálfara og skoðaði hvaða áhrif það hefur á stuðning og fylgi þegar skipt er um leiðtoga.

Nám Loga hófst árið 1993, eða eins og fyrr segir, fyrir tuttugu og fimm árum. Hann segir að upprunalega hafi hann farið í námið því hann hafði sótt um vinnu hjá RÚV sem hann fékk ekki því hann uppfyllti ekki menntunarkröfur. Í kjölfarið fór hann í háskólann. „Ég hef dundað mér við þetta í gegnum árin og held alveg örugglega að ég hafi lokið náminu sjálfu fyrir tíu árum, en átti bara ritgerðina eftir. Ég skráði mig fyrst í útskrift haustið 2008. Þá væntanlega ætlaði ég að byrja að skrifa en svo er maður alltaf að gera eitthvað annað, vinna eða eignast börn,“ segir Logi í samtali við Fréttablaðið.

En hvað varð til þess að Logi ákvað að ljúka náminu núna?

„Það vildi svo skemmtilega til að ég fékk á mig lögbann þannig ég hafði skyndilega tíma í þetta. Mér gafst stund í þetta,“ segir Logi og segir skemmtilega sögu á bak við það sem tengist leiðbeinendum hans, Ólafi Þ. Harðarsyni, prófessor í stjórnmálafræði og Margréti S. Björnsdóttur, aðjunkt við Háskóla Íslands.

„Við Óli gerðum veðmál í kosningunum árið 1999. Þá sömdum við um það að ég myndi útskrifast hjá honum. Hann minnti mig á þetta annað slagið. Þegar fréttir bárust að ég hefði verið settur í lögbann þá hringdi hún daginn eftir og sagði „Jæja, Logi minn, mér sýnist þú hafa lausan tíma núna til að klára þessa ritgerð“. Ég ákvað því bara að slá til,“ segir Logi.

Svipuð áhrif leiðtogaskipta í stjórnmálum og fótbolta

Logi segir að hann hafi verið búinn að hugsa um efnið í nokkurn tíma. „Mér finnst þetta áhugaverður samanburður. Grunnurinn í þessu eru leiðtogar og hversu miklu máli þeir skipta og hvernig áhrif þeir hafa. Niðurstöðurnar eru eiginlega þær að þetta er mjög svipað þegar litið er til stjórnmálaleiðtoga og fótboltaþjálfara. Skyndiáhrifin af því að skipta um leiðtoga, hvort sem litið er til fótbolta eða stjórnmála, eru jákvæð. En langtímaáhrifin eru ekkert sérstök og jafnvel þvert á móti. En það er alveg klár fylgni á milli fylgis og breytinga í forystu. Það eru mjög mörg dæmi og þetta er mjög skýrt,“ segir Logi.

Hann segir flokka bæta að meðaltali við sig níu prósenta fylgi við leiðtogaskipti og knattspyrnufélög um 14 prósent, ef litið er til árangurs. Litið var til annars vegar kannanna og hins vegar vinningshlutfalls.  „Það er auðvitað auðveldara að mæla fótboltamennina því þeir spila í hverri viku, en við erum ekki enn komin þangað að kosið sé í hverri viku,“ segir Logi hlæjandi.

Talið berst þá að því hvort að beri megi saman flokkshollustu og liðshollustu en Logi segir að það sé aðeins erfiðara að rannsaka. „Flokkshollusta hefur farið minnkandi. Það eru til mælingar á því hversu mörgum líkar við  stjórnmálamann og það er hægt að bera það saman við hversu mörgum í flokknum líkar við hann og þá er hægt að sjá hvort hann hefur, til dæmis, áhrif út fyrir flokkinn og hversu líklegt er að hann hafi áhrif á það hvað fólk kýs. Það eru mörg merkileg dæmi um það. Davíð Oddsson er gott dæmi. Steingrímur Hermannsson hafði einnig mikil persónuáhrif og Katrín Jakobsdóttir hefur þau að sama skapi,“ segir Logi.

Hann segir það gjörólíkt í fótboltanum. „Þú heldur bara með þínu liði. Það þykir ekkert ófínt að skipta um stjórnmálaflokk, en það þykir alls ekki fínt að skipta um fótboltalið. Ég er bara Víkingur og get ekkert í því gert, ég bara verð Víkingur,“ segir Logi að lokum.

Guðslukka að Loga var bannað að byrja í nýrri vinnu

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor, segir að hann hafi ekki leiðbeint mörgum undanfarin ár en það hafi verið mikil ánægja að leiðbeina Loga. 

„Þetta var skemmtilegt efni og ekki spillir fyrir að ég er mikill áhugamaður um fótbolta. Það var mikil guðslukka að honum að var bannað að byrja í nýju vinnunni. Þá fékk hann nokkra mánuði til að klára,“ segir Ólafur í samtali við Fréttablaðið.