Að­dá­endur kín­verska Loch Ness skrímslisins urðu fyrir miklum von­brigðum þegar í ljós kom að skrímslið al­ræmda væri tuttugu metra langur loft­púði sem lent hafði í Y­angtze ánni. Tugir milljóna höfðu séð mynd­bandið þar sem mátti sjá móta fyrir dular­fullu svörtu formi fljóta í ánni.

Mynd­bandið, sem er ekki í sérlega góðum gæðum, fór eins og eldur um sinu á sam­fé­lags­miðlum í vikunni. Í kjöl­farið var fjallað um „skrímslið“ á öllum helstu miðlum Kína, þar með talið ríkismiðlum.

Þriggja gljúfra vatna­skrímslið

Á­horf­endur mynd­bandsins sann­færðust margir hverjir um að hér væri á ferðinni fyrsta mynd­efni af Loch Ness skrímsli Kína. Loft­púðinn hlaut fljótt viður­nefnið „Þriggja gljúfra vatna­skrímslið,“ í höfuðið á nær­liggjandi stíflu sem ber heitið „Þriggja gljúfra stíflan.“ Þá voru kenningar um að sá hluti skrímslisins sem væri undir vatni væri gríðar­lega stór. Einnig velti fólk fyrir sér hvort skrímslið hefði orðið til vegna mengunnar í Yangtze ánni.

Á þriðju­daginn veiddu byggjustarfsmenn við ánna síðan skrímslið upp, eða langan slöngu­laga hlut sem reyndist vera loft­púði. Talið er að loftpúðanum hafi verið fargað á skipa­smíða­stöð. Þar með var goð­sögnin um vatna­skrímslið kæfð í fæðingu.