„Lóan er hið eina sanna sameiningartákn þjóðarinnar,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona lóunnar, en tilkynnt var á sumardaginn fyrsta að lóan hefði verið valin fugl ársins.

Guðrún lagði nótt við dag við að lyfta heiðlóunni á flug í keppninni. Hún fór í útvarpsviðtöl, opnaði kosningaskrifstofu, var með kosningakaffi á pallinum og lét útbúa sérstakan hringitón með lóusöng. Þá stofnaði hún að sjálfsögðu einnig fésbókarsíðu fyrir heiðlóuna sem þegar er komin með um 600 fylgjendur.

Allir 20 fuglarnir sem voru í framboði höfðu kosningastjóra á sínum snærum, fólk úr ýmsum áttum og á öllum aldri. Margir stofnuðu samfélagsmiðlasíður fyrir sína fugla, gerðu myndbönd, fóru í viðtöl og himbriminn fékk sína eigin vefsíðu.

Alls bárust 2.054 atkvæði og stóð valið um 20 fugla. Velja mátti fimm fugla og raða þeim í sæti 1-5. Það er Fuglavernd sem stendur að baki kosningunni en stefnt er að því að hún verði árlegur viðburður. Keppnin er haldin í þeim tilgangi að vekja athygli á fuglum og þeim ógnum sem að þeim steðja, þar á meðal röskun búsvæða og loftslagsbreytingum.

Fuglar í tíu efstu sætum í kosningum um Fugl ársins 2021: 1. Heiðlóa, 2. Himbrimi, 3. Rjúpa, 4. Hrafn, 5. Maríuerla, 6. Kría, 7. Hrossagaukur, 8. Lundi, 9. Svartþröstur, 10. Músarrindill.