Heilbrigðisyfirvöld á Spáni hafa varað við því að nú sé verið að leggja yngra fólk inn á gjörgæslu vegna bráðatilfella af COVID-19, en ekki aðeins eldri sjúklinga.

El País vitnar til viðvörunar frá Fernando Simón hjá heilbrigðisráðuneyti Spánar, sem biðlar til ungmenna að fara varlega. Þau séu álitin kærulausari gagnvart því að gæta sín og samskipti þeirra séu uppspretta aukningar í smiti.

Meðalaldur kvenna sem greinast með COVID-19 á Spáni er 41 ár og karla 45 ár. „En sé eingöngu litið til gagna frá síðustu þremur vikum er meðalaldurinn mun lægri eða 38 ár hjá konum og 36 ár hjá körlum. Í mars og apríl hafi meðalaldur sjúklinga verið yfir 60 ár.