Fram­lög til ofan­flóða­varna og eflingar vöktunar og styrkingu stjórn­sýslu vegna náttúru­vár hækka um 10,2 milljarða króna sam­kvæmt fjár­mála­á­ætlun 2021-2025.

Í kjöl­far fár­viðrisins sem reið yfir landið á síðasta ári skipaði ríkis­stjórnin á­taks­hóp um úr­bætur í inn­viðum. Meðal þeirra úr­bóta sem hópurinn lagði til var að upp­byggingu ofan­flóða­varna yrði lokið árið 2030.

Ljúka fram­kvæmdum fyrr

Frá og með árinu 2021 er gert ráð fyrir tæp­lega 2,7 milljörðum króna ár­lega til varna gegn náttúru­vá. Það er ár­leg aukning um 1,6 milljarð króna frá því sem nú er.

Auknum fjár­munum verður ráð­stafað til þess að ljúka fram­kvæmdum fyrr en á­ætlað var, en alls hafa 47 verk­efni til varnar ofan­flóðum verið skil­greind og er 27 þeirra nú lokið. Gert er ráð fyrir að 35 þeirra verði lokið árið 2025 og að öllum fram­kvæmdar­verk­efnum til varnar ofan­flóðum verði lokið árið 2030, en ekki um 2050 líkt og fyrri á­ætlanir gerðu ráð fyrir.

Efla vöktun

Einnig verður völtun náttúru­vár aukin á næstu árum. Gert ráð fyrir ríf­lega 1,7 milljarði króna í sér­stöku fjár­festingar­á­taki ríkis­stjórnarinnar vegna kórónu­veirufar­aldursins til eflingar vöktunar og styrkingar stjórn­sýslu, meðal annars með kaupum á vöktunar- og mæla­búnaði, hug­búnaði og endur­nýjun og upp­byggingu veður­sjár­kerfis.