Umhverfisstofnun hefur tilkynnt utanvegaakstur á jarðhitasvæði við Sogin í vesturjaðri Reykjanesfólkvangs, sem er friðlýst svæði, til lögreglu. Svæðið er jarðhitasvæði og þakið hveraleir en miklar skemmdir eru á leirnum eftir aksturinn. Landvörðurinn Ásta K. Davíðsdóttir staðfesti þetta við Fréttablaðið í dag en hún kom að förunum.

Hjólförin ná upp í hlíðar. Mynd frá Umhverfisstofnun.

Hjólförin sjást skýrt og greinilega í jarðveginum en Ásta segir þau vera eftir allavega þrjú mótorhjól og eitt fjórhjól. RÚV greindi fyrst frá málinu í morgun. Ekki er vitað hversu gömul förin eru en ekki er talið að þau hafi verið gömul þegar þau uppgötvuðust fyrst, þann 9. júní.

Til stendur að reyna að má förin út þar sem hægt er en Ásta telur það best svo að fólk sjái þau ekki og færu ekki að herma eftir uppátæki þessara óprúttnu aðila. Hjólförin liggja um vítt svæði og ná upp hlíðar með mosa á tveimur stöðum. Ekki er vitað hverjir óku farartækjunum eða hvort þeir hafi verið á svæðinu á sama tíma.

Sárin í jarðveginum sjást greinilega. Mynd frá Umhverfisstofnun.