Ljóst er að skipta þarf um gólfið í Laugar­dals­höllinni eftir að upp kom leki þar í síðustu viku. Í dag var hafist handa við að rífa upp gólfið og eru skemmdirnar að sögn fram­kvæmda­stjóra verulegar. Lekinn kom upp að­fara­nótt mið­viku­dags, eins og greint var frá fyrr í vikunni, en upp­götvaðist ekki fyrr en um morguninn.

Birgir Bárðar­son, fram­kvæmda­stjóri Laugar­dals­hallar, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið fyrr í vikunni að það þyrfti að opna gólfið til að skoða nánar hversu al­var­legar skemmdirnar væru. Það væri stein­ull undir gólfinu og það þyrfti að kanna hversu mikið vatn væri í henni og timbur­grind sem einnig væri undir.

„Þeir eru byrjaðir að rífa gólfið upp. Það er kannski búið að taka 40 og 50 fer­metra af gólfinu. Þeir munu halda á­fram að rífa og það liggur ljóst fyrir að það þurfi að skipta um gólf. Það er ekki hægt að bjarga þessu sem var hérna fyrir,“ segir Birgir í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag.

Guðmundur Guðmundsson stýrir landsliðsæfingu á parketinu í höllinni.

Dýrt og langt ferli

Hvað varðar stein­ullina undir gólfinu segir hann hana alveg renn­blauta.

„Það voru allir að vona en hún er rennandi blaut þar sem er búið að rífa. Við erum dæmd til að fara þetta ferli, sem verður ansi dýrt og langt ferli,“ segir hann að lokum.

Spurður hvernig fari með í­þrótta­starf sem hefur verið í höllinni segir hann að það sé búið að flytja það í önnur hús­næði og að ein­hver hluti, eins og í­þrótta­kennsla í skólunum í kring, fari í frjáls­í­þrótta­höllina.

Íslenska landsliðið á æfingu.
Fréttablaðið/Anton Brink