Yair Lapid, leið­togi Yesh Atid, til­kynnti Reu­ven Rivlin, for­seta Ísrael, í gær að honum hafi tekist að mynda ríkis­stjórn á­samt Naftali Bennett, leið­toga þjóð­ernis­flokksins Yamina, en um er að ræða ríkis­stjórn átta flokka sem eru víða á pólitíska rófinu og eiga fátt annað sam­eigin­legt en að vilja koma Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísrael, frá völdum.

Þrátt fyrir að flokkarnir hafa náð saman í gær er ekki þar með sagt að á­ætlunar­verk þeirra hafi tekist en ljóst er að Netanyahu ætli ekki að víkja frá em­bættinu þegjandi og hljóð­laust. Þingið á enn eftir að stað­festa hina nýju ríkis­stjórn og þar sem for­seti þingsins kemur úr Likud-flokki Netanyahu er ekki ó­lík­legt að slík at­kvæða­greiðsla gæti tafist fram til næstu eða jafn­vel þar­næstu viku.

Í kjöl­far yfir­lýsinga Lapid og Bennett í gær kallaði Netanyahu eftir því að flokkarnir á hægri væng stjórn­málanna myndu neita að staðfesta ríkisstjórnina. Ó­hætt er að segja að nýja ríkis­stjórnin standi völtum fótum og því gætu tafir á at­kvæða­greiðslu gefið Netanyahu meiri tíma til að sann­færa aðra flokka sem munu taka þátt í samstarfinu.

Mikið um málamiðlanir

Ef ríkis­stjórn Lapid verður sam­þykkt mun Bennett gegna em­bætti for­sætis­ráð­herra fyrstu tvö árin og Lapid næstu tvö þar á eftir. Aðrir flokkar sem Yesh Atid og Yamina munu vinna með ef sam­starfið gengur eftir eru Blá­hvíta-banda­lagið, Yis­rael Beyt­enu, New Hope, Verka­manna­flokkurinn, Meretz og Araba­flokkurinn Ra’am.

Frá því að Bennett lýsti því yfir að hann væri til­búinn til að starfa með Lapid um helgina stóðu yfir strangar stjórnar­myndunar­við­ræður og var það tví­sýnt á tíma­bili hvort þeim myndi takast að mynda nýja stjórn. Mikið var um mála­miðlanir, enda er hug­mynda­fræði flokkanna mjög mis­jöfn, og komust þau ekki að sam­komu­lagi fyrr en seint í gær­kvöld.

Fimmtu kosningarnar ekki útilokaðar

Pólitísk krísa hefur verið í Ísrael síðast­liðin ár en Ísraelar gengu til sinna fjórðu þing­kosninga á innan við tveimur árum síðast­liðinn mars og ef ekki tekst að mynda starf­hæfa stjórn núna munu þau lík­lega þurfa að ganga til fimmtu kosninganna.

Litið hefur verið á kosningarnar sem hálf­gerða þjóðar­at­kvæða­greiðslu um Netanyahu, sem hefur gegnt em­bætti for­sætis­ráð­herra frá árinu 2009, en hann á yfir höfði sér á­kærur fyrir spillingu. Vegna þessa hafa margir verið tregir til að vinna með honum sem hefur leitt til á­kveðinnar patt­stöðu.