Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir erfitt að spá fyrir miklu út frá fyrstu tölum en að Flokkur fólksins sé augljóslega í sókn.
„Það er svolítið snemmt til að segja nokkuð mikið en það er ljóst að Flokkur fólksins er að taka meira en búist var við og fylgistap Miðflokksins er að staðfestast, ef það er eitthvað að marka þetta,“ segir Grétar um fyrstu tölur kvöldsins.
Hann segir að það sé þó erfitt að áætla um kjördæmin út frá fyrstu tölum því í Suður- og Norðvestur sé um að ræða mjög víðfeðm kjördæmi.
„Það er ólíkt pólitískt landslag eftir svæðum og fyrstu tölur endurspegla kannski mest ástandið næst talningarstað. Með einföldun getum við sagt að það séu komnar tölur úr Borgarnesi og Akranesi og Selfossi,“ segir Grétar.
Hann segir að það sé eins í Norðausturkjördæmi. Þar séu miklar sveiflur og það sé stundum gott að bíða til þriðju eða fjórðu talna til að meta stöðuna.
„Framsóknarflokkurinn er í mikilli sókn þar og Sósíalistaflokkurinn á erfiðara fyrir þar. Það leit út fyrir að þau myndu ná manni inn en það virðist langt í það. Miðflokkurinn horfir á hrun. Framsóknarflokkurinn tekur forystuna en þetta er auðvitað svæðaskipt. Þessar tölur eru væntanlega frá Akureyri og Eyjafirði og það á ekki að breyta miklu fyrir Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn en Samfylkingin gæti lækkað eitthvað en já, Flokkur fólksins virðist alls staðar vera í sókn og að vinna sigur.“
Hér að neðan má sjá tölur úr kjördæmum.