„Það verður ekkert annað sagt en að ástandið í greininni sé bágborið,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri aðspurður hvernig ferðaþjónustufyrirtækjum sé almennt að reiða af nú þegar COVID-ástandið kastar sínum stóra skugga.

Skarphéðinn bendir á að í hartnær fjóra mánuði hafi varla erlendur ferðamaður stigið hér á land þannig að eðlilega sé ástandið slæmt.

„Ferðamennirnir eru svo miklu færri en ferðaþjónustan afkastar. Það hafa það allir, eða flestir, frekar skítt.“

Hann óttast þó ekki neina hrinu gjaldþrota, en því miður er fyrirséð að einhverjir muni skella í lás og ekki opna aftur.

„Það er fyrirsjáanlegt að einhver fyrirtæki muni ekki komast í gegnum þetta, því miður. Það eru ýmsar aðgerðir stjórnvalda sem hafa hjálpað og fyrirtæki hafa getað brugðist við með ýmsum hætti.“

Hann bendir á að erlendir ferðamenn séu aðeins 10-15 prósent af þeim fjölda sem var í júlí á síðasta ári.

„Þegar er mikill munur á framboði og eftirspurn þá lækkar verðið og stundum lækkar það umtalsvert. Til viðbótar við fækkun er því verðlækkun, sem er ekki góð formúla fyrir fyrirtæki.“

Íslendingar hafa verið duglegir að ferðast í sumar og pakkað ofan í ferðatösku og haldið á þjóðvegi eða upp á hálendi. Skoðað fossa og vötn og fjöll og firði.

„Ferðahegðun Íslendinga er að ýmsu leyti frábrugðin erlendra ferðamanna. Það þarf ekki annað en að fara út á þjóðveginn til að sjá það. Íslendingar eru á eigin bíl, draga gistinguna eftir sér, með matinn í skottinu hjá grillinu og afþreyinguna á þakinu á bílnum með reiðhjólunum. Þeir eru með allt í senn. Flutninginn, gistinguna, afþreyinguna og matinn.“

Hann segir að Íslendingar séu duglegir að gista á tjaldsvæðum, en meira en helmingur gistinátta Íslendinga á sumrin er á tjaldsvæðum.

„Þá er ekki talið með gistinætur í orlofshúsum, hjá ættingjum, í sumarbústað og fleira. Gisting Íslendinga á hótelum í gegnum tíðina hefur verið vel innan við 20 prósent. En ég er ánægður að sjá hvað Íslendingar eru duglegir að ferðast. Sjá hvernig ferðaþjónustan hefur byggst upp á öllu landinu.


Þetta fór betur af stað en menn gerðu ráð fyrir. Hefðbundið er að Íslendingar ferðast eftir veðri, en ferðamennska Íslendinga hefur verið að dreifast vel.


Sannarlega munar um hvern haus þó að þetta komi ekki í stað þess sem ferðaþjónustan getur annað,“ segir Skarphéðinn.