Einar Ólason, einhver vaskasti fréttaljósmyndari landsins til áratuga birti í gær sögufræga mynd sem hann smellti af Frederik André Henrik Christian, betur þekktum sem Friðriki Danakrónprins, á bar í Reykjavík og birtist í Alþýðublaðinu fyrir rétt rúmlega 22 árum síðan.

Einar deildi myndinni á Facebook með þessum orðum: „Þekkir einhver konuna. Myndina tók ég af Friðrik danaprins og þessari huldukonu í byrjun tíunda áratugarins á Café Reykjavík.“

Þessi myndataka dró hressilegan dilk á eftir sér en Einar hefur aldrei hvorki fyrr né síðar náð tali af konunni sem skemmti sér svona líka vel í félagsskap danska ríkisarfans.

„Við auglýstum eftir henni í Alþýðublaðinu á sínum tíma en það bar ekki árangur. Alþýðublaðið var nú ekki útbreitt blað á þessum tíma en afskaplega gott blað,“ segir Einar í samtali við Fréttablaðið.

„Því var ritstýrt og skrifað af merkum mönnum í þjóðfélaginu í dag eins og Agli Helgasyni, Össuri Skarphéðinssyni, Sæmundi Guðvinssyni og fleiri góðum. Og Hrafni Jökulssyni svo ég gleymi nú ekki aðal manninum.“

Myndin birtist einmitt í ritstjóratíð Hrafns þegar myndlistarmaðurinn Jón Óskar sá um útlitshönnun blaðsins. „Þetta var skrautlegur þjóðflokkur skal ég segja þér og maður hafði kannski meiri viðveru á börum heldur en á ritstjórninni,“ segir Einar og hlær.

En hvað kemur til að þú ferð að leita að konunni aftur núna?

„Ætli það sé ekki þessi almenna helvítis forvitni og gamli fréttamaðurinn sem liggur alltaf sofandi í mér og vaknar alltaf annað slagið,“ segir Einar og víkur sögunni að því hvernig honum tókst að festa prinsinn á filmu á djamminu í Reykjavík.

„Ég var að koma af kvöldfundi hjá Alþýðuflokknum niðri á Hótel Borg þangað sem ég var sendur til að mynda og er að ganga upp Vesturgötuna þegar ég sé þennan heimsfræga mann labba inn á Café Reykjavík.“

Óvænt tækifæri á einstakri mynd

Friðrik var þarna í áhöfn danska varðskipsins Vædderen sem kom til hafnar í Reykjavík á eftirlitsferð um Norðurhöf. Boðað var til blaðamannafundar vegna Íslandsheimsóknar krónprinsins og þar átti Einar að vera en komst ekki.

„Þannig að ég sá þarna tilvalið tækifæri til þess að ná helvítis fréttamyndinni sem ég átti að ná fyrr um daginn. Og jafnvel einni betri og öðruvísi en aðrir og skottaðist inn á eftir honum,“ segir Einar.

„Hann sest við barinn og hjá honum þessi stúlka og ég skellti mér bara inn fyrir barinn vegna þess að ég þekkti nú fólkið þarna enda var ég nú heimavanur á flestum börum landsins þangað til fyrir fjórum árum síðan þegar ég hætti að drekka brennivín.“

Eins og í bíómynd

„Ég smellti svo tveimur myndum en þá varð allt vitlaust,“ segir Einar og bætir við að æsileg atburðarásin sem tók þá við hafi verið eins og í bíómynd. Þar komu meðal annars við sögu tröllvaxnir lífverðir prinsins.

„Þessir menn voru ívið stærri en ég og ég þyki nú ekkert lítill maður, er 1,93 á hæð. En þessir voru sirka tveir og eitthvað á alla kanta. Þannig að ég virkaði eins og títuprjónn þarna við hliðina á þeim,“ segir Einar en svona var atburðum lýst á forsíðu Alþýðublaðsins þriðjudaginn 1. október 1996.

„Þegar ég kom inn sá ég Friðrik standa við barinn í hrókasamræðum við íslenska blómarós. Ég mundaði vélina og tók tvær myndir. Þá króaði krónprinsinn mig af fyrir innan barborðið og heimtaði filmuna,“ hafði blaðið eftir Einari.

Einar neitaði að afhenda filmuna en þá hótaði prinsinn að láta henda honum út, sagðist þekkja eigendur staðarins og að bannað væri að taka af honum myndir.

„Ég sagði honum bara að gera það og labbaði burtu. Ég sá að lífverðir Friðriks, alls fjórir, fylgdust grannt með mér. Þá rak ég augun í tvær konur sem ég kannaðist við, Hrafnhildi og Bryndísi, tók filmuna úr vélinni og laumaði henni til Hrafnhildar svo lítið bar á og bað hana að taka fílmuna með sér. Ég óttaðist að lífverðirnir myndu sitja fyrir mér og ná af mér filmunni. Svo fór ég en án afskipta þeirra,“ sagði Einar.

Leikar æsast

En sagan er ekki aldeilis búin því vinkonurnar Hrafnhildur Arnardóttir og Bryndís Guðjónsdóttir hárgreiðslumeistarar lentu í viðureign við lífverði krónprinsins.

,Já, Einar lét okkur fá filmu og mér  datt ekki í hug að nokkur hefði séð það því hann bar sig mjög laumulega að. Én þeir hafa fylgst svona rosalega vel með. Þegar við Bryndís fórum á klósettið ýttu tveir lífverðir hurðinni skyndilega upp og heimtuðu að fá að sjá í veskin okkar.

Þeir voru tveir og alveg rosalega ákveðnir og sögðu á dönsku: Vi skal ha' filmen. Sem betur fer var ég ekki með veskið mitt, en þar var filman, ég hafi skilið það eftir hjá vinafólki okkar upp. Það var algjör tilviljun að ég var ekki með það.

Bryndís var með sitt veski og sýndi þeim það. A meðan notaði ég tækifærið, hljóp upp og kallaði á dyravörðinn. Bryndís reyndi að ýta öðrum lífverðinum til en hann haggaðist ekki. Ég var ekkert smá hrædd og hjartað hamaðist.

Skömmu síðar kom dyravörðurinn til okkar en þá hafði hann átt tal við lífverðina. Hann spurðist fyrir um filmuna en við þóttumst ekkert vita,“ sagði Hrafnhildur við Alþýðublaðið á sínum tíma sem lét þess getið að þeim vinkonunum varð mikið um þessa ævintýralegu atburðarás.

Danska pressan stekkur á málið

Og ekki lauk ævintýrinu með dramatískri björgun filmunnar vegna þess að þegar myndir Einars og frásögnin af eftirleiknum birtist í Alþýðublaðinu stukku danskir fjölmiðlar til og myndirnar enduðu á forsíðu Extra-bladet.

„Við birtum þetta svo á forsíðu Alþýðublaðsins og þá gerist það að dönsku fjölmiðlarnir komast í málið og báðu um söguna og þetta kom á forsíðu Extra-blaðsins strax á fimmtudeginum.

Þetta voru ekki þeir tímar sem maður gat hent mynd út í heim á nokkrum sekúndum og mig minnir að við höfum símsent myndina,“ segir Einar sem að vonum var á sínum upp með sér að myndir hans næðu þessum áfanga og vonast nú til þess að ná fundum íslensku konunnar sem skemmti sér með prinsinum þetta ævintýralega kvöld í Reykjavík fyrir 22 árum síðan.