Félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands felldu í dag kjarasamning sem fulltrúar ljósmæðra og ríkisins skrifuðu undir í síðustu viku.

87 prósent félagsmanna tóku þátt í rafrænni atkvæðagreiðslu sem lauk á miðnætti í gærkvöldi. 63 prósent þeirra sem tóku þátt felldu samninginn en 33 prósent samþykktu hann. Þá skiluðu rúmlega 3,3 prósent auðu í atkvæðagreiðslunni.

Ljósmæður hafa staðið í harðri kjarabaráttu við ríkið undanfarna mánuði. Hefur fjöldi ljósmæðra sagt upp störfum hjá ríkinu í mótmælaskyni vegna slæmra kjara og álags á vinnustað. Þá þurftu félög ljósmæðra að hætta við yfirvinnubann í upphafi maímánaðar eftir að þeim barst bréf frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem þeim var tilkynnt að slíkt bann væri verkfallsaðgerð og því ólögmætt nema til þeirra sé boðað eftir lögbundnu verklagi.

Síðasta kjaradeila ljósmæðra við ríkið lauk með lagasetningu á verkfall ljósmæðra árið 2015 og því ekki skrifað undir samning. Heimildir Fréttablaðsins herma að margar ljósmæður séu enn ósáttar með það, enda hafa sumar þeirra ekki fengið greitt vegna vinnu sem unnin var á meðan deilunni stóð, og kann að vera ástæða einhverra ljósmæðra fyrir því að fella samninginn. Enn á eftir að leysa úr þeim, en ljósmæður unnu í héraðsdómi, en ríkið áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar sem á eftir að dæma í málinu.