Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag mann í 10 mánaða fangelsi fyrir fjöldamörg þjófnaðarbrot, umferðarlagabrot og önnur hegningarlagabrot.

Maðurinn var ákærður fyrir þjófnaðarbrot í 54 ákæruliðum en í 35 þeirra var ákært fyrir þjófnað á ljósaperum. Yfirleitt ljósaperur af gerðinni Osram led 2,8w eða Osram Led 4w og alls um 250 ljósaperur í fjölmörgum ránum.

Aðrir munir sem maðurinn var ákærður fyrir þjófnað á voru raftæki, áfengi og sælgæti frá mörgum mismunandi fyrirtækjum.

Framdi flest brotin á 7 mánaða tímabili

Maðurinn framdi flest þjófnaðarbrot sín á tímabilinu 14. Október 2021 fram að 10. Maí 2022 eða á um 7 mánuðum.

Í fyrstu ákæruliðum, sem taldir eru fram í tímaröð, var þjófnaðurinn yfirleitt á vörum að upphæðum frá 1500 krónum upp í 40 þúsund krónur en snemma árs 2022 varð þjófnaðurinn heldur bíræfnari.

Fóru þá upphæðir varningsins að nema hundruðum þúsunda í flestum tilfellum.

Sem dæmi var maðurinn ákærður fyrir að hafa þann 12. Febrúar 2022, rænt varningi úr Byko í Kópavogi fyrir 391.900 krónur.

Meðal varningsins var KitchenAid hrærivél, ryksuguvélmenni, tvær skaftryksugur, ljósaperur og búðarkerra. En búðarkerrunni var eflaust stolið svo hægt væri að færa þýfið frá vettvangi.

Stærsti þjófnaður mannsins var samanlagt að verðmæti 487.220 krónur en hann var framinn þann 13. mars 2022. Var sá þjófnaður aftur framinn í Byko í Kópavogi en þá rændi maðurinn fjórum ryksuguvélmennum og átta ljósaperum.

Fjármagnaði neyslu sína með þjófnaði

Maðurinn játaði brot sín skýlaust og kvaðst hafa verið í mikilli neyslu á þeim tíma sem brotin voru framin.

Kvaðst maðurinn hafa verið háður verkjalyfinu OxyContin og hann fjármagnað neyslu sína með þjófnaðinum.

Samanlagt virði þeirra muna sem maðurinn stal er í kringum 7 miljónir króna og komst þýfið að óverulegu leyti til skila til þeirra fyrirtækja sem töpuðu þeim.

Ásamt því að vera dæmdur í 10 mánaða fangelsi var maðurinn dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar ásamt endurgreiðslu á þeim varningi sem hann stal.