Nokkur aukning hefur orðið á fjölda ljósabekkja frá síðustu talningu Geislavarnir ríkisins sem fór fram árið 2017. Aukningin hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu.

Geislavarnir hafa talið ljósabekki á þriggja ára fresti frá árinu 2005 en þetta er í fyrsta sinn sem bekkjum fjölgar milli talninga en fjölgunin er ekki veruleg. Ef skoðaður er fjöldi ljósabekkja með tilliti til íbúafjölda þá helst hann óbreyttur frá síðustu talningu en sýnir að notkun bekkjanna er enn nokkur þótt hún hafi farið minnkandi.

Samtals selja nú 23 staðir almenningi aðgang að ljósabekkjum, þar af 9 á höfuðborgarsvæðinu og 14 á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu eru því fáir staðir með marga bekki.

Nýleg könnun Gallup sýnir að hlutfall fullorðinna sem höfðu notað ljósabekki einu sinni eða oftar á undanförnum 12 mánuðum var komið niður í um 6 prósent, fór úr 10 prósent árið 2019. Hlutfallið hefur ekki verið lægra frá því að kannanir hófust árið 2004. Hlutfall þeirra sem höfðu notað ljósabekki var hæst hjá aldursbilinu 18 – 24 ára, eða rúmlega 20 prósent.

Undanfarin sautján ár, frá því mælingar á notkun ljósabekkja hófust, hefur dregið verulega úr notkun þeirra. Árið 2004 höfðu um 30 prósent fullorðinna notað ljósabekki í einhverjum mæli síðustu 12 mánuði, en frá árinu 2013 hefur þessi tala verið um 10 prósent, þar til nú þegar hlutfallið er komið niður í 6 prósent.