Liz Truss, for­­sætis­ráð­herra Bret­lands hefur sagt af sér em­bætti. Hún tók við sem for­­sætis­ráð­herra þann 5. septem­ber síðast­liðinn eftir að Boris John­son sagði af sér em­bætti.

Em­bættis­tíð hennar entist einungis í 45 daga en með því verður hún sá for­sætis­ráð­herra sem gengt hefur em­bætti styst.

Til­kynning Truss kom í kjöl­far fundar hennar við Graham Brady, formanns 1922 nefndarinnar, sem stendur saman af með­limum Í­halds­flokksins og sér meðal annars um val á nýjum leið­toga.

Í af­sagnar­ræðu sinni sagðst Truss hafa starfað með sýn um lág­skatta hag­kerfi sem myndi nýta sér frelsi Brexit.

„Ég viður­kenni að miðað við á­standið get ég ekki fylgt um­boðinu sem fylgir því að ég var kosin af Í­halds­flokknum. Ég hef talað við konunginn og til­kynnt honum að ég sé að hætta sem leið­togi Í­halds­flokksins,“ sagði Truss.

Truss sagði að á fundi hennar og Brady hafi komið fram að leið­toga­kjör verði haldið í næstu viku. „Þetta mun tryggja að við höldum á­fram og reynum að skila fjár­mála­á­ætlun okkar og við­halda efna­hags­legum stöðug­leika og þjóðar­öryggis lands okkar,“ sagði Truss.

Hún sagðist ætla að vera for­sætis­ráð­herra á­fram þar til eftir­maður hennar verður valinn.

Sam­kvæmt könnun frá YouGov er fjöldi Í­halds­manna á þeirri skoðun að önnur leið­toga­bar­átta, eins og sú sem haldin var í sumar eftir að John­son sagði af sér, væri skað­leg fyrir al­mennings­á­lit á flokknum.

Mikill meiri­hluti, um 60 prósent, vilja að þing­menn hópist að baki eins fram­bjóðanda án þess að kosið verði um hann. 37 prósent eru and­stæð þeirri til­lögu.

Vilja kosningar strax

Meðlimir breska Jafnaðarmannaflokksins og Frjálslyndra demókrata hafa kallað eftir því að blásið verði strax til kosninga. „Íhaldsflokkurinn hefur sýnt fram á að hann hefur ekki umboðið til að stjórna lengur,“ sagði Keir Starmer, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins.

Fréttin hefur verið uppfærð.