Liz Truss, sem í gær bar sigur úr býtum í for­­­manns­­­kosningum Í­halds­­­flokksins, er tekin við em­bætti for­­­sætis­ráð­herra Bret­lands. Hún fjórði for­­­sætis­ráð­herrann á átta árum.

Hún heim­­sótti Elísa­betu drottningu í Balmor­al-kastala í dag og bauð drottningin Truss að mynda ríkis­­stjórn eins og venja. Áður hafði for­veri Truss, Boris John­­son, gengið á fund drottningar og sagt for­m­­lega af sér. Þetta er í fyrsta skipti í nokkurn tíma þar sem Elísa­bet kemur fram opin­ber­­lega en hún hefur glímt við heilsu­fars­vanda­­mál undan­farin misseri. Var það á­­stæða þess að fundurinn fór fram í Balmor­al en ekki Bucking­ham-höll líkt og vana­­lega.

Liz Truss var glöð í bragði í dag er hún heim­­sótti skrif­­stofu Í­halds­­flokksins áður en hún hitti Bret­lands­drottningu.
Fréttablaðið/EPA

Truss bíður heljar­mikið verk­efni enda eru efna­hags­horfur í Bret­landi afar slæmar og miklar líkur eru taldar á sam­drætti. Í um­fjöllun Wall Street Journal er á­standið borið saman við það sem var er Margaret Thatcher tók við for­sætis­ráð­herra­em­bættinu árið 1982.

Áður en hún getur hafist handa við að takast á við efna­haginn mun Truss flytja ræðu fyrir framan Downing­stræti 10 þar sem hún greinir frá fyrir­huguðum að­gerðum. Hún hefur þegar sagt að eitt hennar fyrstu verka verði að út­búa 100 milljarða punda að­gerðar­pakka til að takast á við gríðar­legar hækkanir á gasi og orku­verði fyrir heimili og fyrir­tæki. Sam­­kvæmt því sem Truss hefur gefið út mun ríkið niður­­­greiða heild­­sölu­verð á gasi sem mun gera birgða­­sölum kleift að halda niður kostnaði.

Bretar glíma enn við vanda­mál vegna úr­göngu þeirra úr Evrópu­sam­bandinu, sem heft hefur mjög inn- og út­flutning og dregið úr fjölda inn­flytj­enda sem mikil þörf er á til að manna störf þar sem mikill skortur er á vinnu­afli. Út­lit er fyrir að á næsta ári verði verð­bólga mest í Bret­landi af G7 ríkjunum og hag­vöxtur sá minnsti. Einungis eru efna­hags­horfur verri í Rúss­landi af stærstu efna­högum heims sam­kvæmt spá Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðsins. Bresk stjórn­völd segja þessar spár allt of svart­sýnar og benda því til sönnunar á sögu­lega lítið at­vinnu­leysi og að mörg heimili hafi safnað í sarpinn í Co­vid-far­aldrinum.