Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lítur Samherjamálið alvarlegum augum. Segir hún ljóst að stjórnsýsla Seðlabankans hafi ekki verið fullnægjandi í ljósi dóms Hæstiréttar.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, fór hörðum orðum um framferði Seðlabankans í máli Samherja á fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd í síðustu viku. Lagði hann fyrir nefndina álit ríkissaksóknara frá árinu 2014 þar sem kom fram að reglur Seðlabankans kæmu í veg fyrir beitingu refsiheimilda. Tveimur árum síðar ákvað Seðlabankinn að sekta Samherja um 15 milljónir.

Hæstiréttur felldi sektina úr gildi í nóvember síðastliðnum. Í kjölfarið óskaði forsætisráðherra eftir greinargerð frá bankaráði Seðlabankans. Fram kemur í bókun tveggja bankaráðsmanna með greinagerðinni að skýringar bankans á hvers vegna Samherji var sektaður standist ekki. Katrín telur mikilvægt að málin sem fjallað er um í greinargerð bankaráðs verði skoðuð ofan í kjölinn, ásamt því sem fram hefur komið í bréfi umboðsmanns Alþingis.

Katrín segir að óskað verði eftir frekari skýringum frá Seðlabankanum, meðal annars um eftirfylgni með umbótum í stjórnsýslu bankans og um samskipti bankans við fjölmiðla. Már Guðmundsson seðlabankastjóri mætir á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á fimmtudaginn. 

Algjör áfellisdómur yfir stjórnsýslu Seðlabankans

„Þetta er algjör áfellisdómur yfir stjórnsýslu Seðlabankans í málinu. Það er í raun með ólíkindum að bankinn hafi haldið áfram með málið eftir að ítrekað var búið að benda á að það væri ekki lagastoð fyrir þeim refsingum sem bankinn lagði á,“ segir Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, í samtali við Fréttablaðið.

Umboðsmaður Alþingis fór hörðum orðum um framgöngu Seðlabankans í máli Samherja á fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefndar í síðustu viku. Már Guðmundsson seðlabankastjóri mætir á fund nefndarinnar á fimmtudaginn.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í svari til Fréttablaðsins að hún líti málið alvarlegum augum. Ljóst sé að stjórnsýsla bankans var ekki fullnægjandi. Ráðuneytið hefur óskað eftir frekari skýringum frá Seðlabankanum bæði varðandi umbætur á stjórnsýslu og samskipti bankans við fjölmiðla.

Þorsteinn segir að það megi ætla að lögfræðikostnaður Samherja sé ærinn. „Það er ekki á allra færi að standa uppi í hárinu á bankanum með þessum hætti. Þarna hefur augljóslega margt farið úrskeiðis og það er lykilatriði að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.“ Þorsteinn segir að hann sé ekki búinn að kynna sér nákvæmlega lagalegu hliðina, en hann hafi kynnt sér efnislegu hliðina vel þegar málið kom upp. „Þá spurði ég mig að því hvað það væri í málinu sem bankinn er að eltast við. Ég gat ekki áttað mig á hver glæpurinn var og ég hlakka satt best að segja til að heyra útskýringar bankans.“

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir vandamálið tvíþætt. Annars vegar sé algjörlega ótækt að Seðlabankinn sinni „reglusetningar-, eftirlits- og böðulshlutverki“ þegar kemur að misnotkun peningakerfisins. „Hins vegar sýnir þetta mál að í grunninn er enginn raunhæfur farvegur til staðar til að hægt sé að virkilega ganga á eftir fjármálamisferli af þessari tegund,“ segir Smári.

„Það er ágætur skilningur í Seðlabankanum á því hvað nákvæmlega gerðist og hver nákvæmlega græddi á því, en það er engin leið til að leiða málið til lykta vegna þess að enn og aftur reynist kerfinu á Íslandi stillt upp til að verja auðvaldið.“