Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra segist í sam­tali við Vísi líta skot­á­rásina á bíl Dags B. Eggerts­sonar, borgar­stjóra Reykja­víkur­borgar, al­var­legum augum en um helgina fundust skot á hurð bílsins sem var lagður við heimili borgar­stjórans. Sjálfur sagðist borgar­stjórinn vera skelkaður vegna málsins.-

Að sögn Katrínar er um­ræðan um stjórn­mála­menn oft á tíðum ekki mál­efna­leg þar sem þeir eru sakaðir um „hina verstu hluti.“ Hún segist þó ekki telja að lausnin sé að stjórn­mála­menn víg­girði sig heldur þurfi að skoða betur or­sakir á­rásarinnar.

„Ég held við getum öll litið í eigin barm. Að sjálf­sögðu bera stjórn­mála­menn á­byrgð og þeir sem taka þátt í opin­beri um­ræðu. Ég er ekki að tala fyrir því að fólk tjái sig ekki og hér sé ekki fullt mál­frelsi. En horfum til þess sem er verið að segja um fólk,“ segir Katrín í sam­tali við Vísi.

Orðræðan sé hatursfull

Fjöl­margir hafa nú for­dæmt á­rásina, sem og fyrri skot­á­rásir á skrif­stofur stjórn­mála­flokka, en lög­reglan er enn með málin til rann­sóknar. Meðal þeirra sem hafa for­dæmt á­rásina er Við­reisn en flokkurinn segir það vera á á­byrgð allra að stemma stigu við haturs­fullri um­ræðu.

Það eru þó ekki allir sam­mála um hvar sökin liggur í tengslum við málið en Ólafur Guð­munds­son, vara­borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, sagði í gær­kvöldi að „byltingin væri komin heim“ og Dagur þyrfti bara að taka því.

Aðrir flokks­menn Sjálf­stæðis­flokksins hafa þó for­dæmt um­mæli Ólafs, til að mynda hefur Hildur Björns­dóttir, borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, kallað eftir því að málið verði tekið upp á fundi for­sætis­nefndar.

„Hafi það verið ein­hverjum vafa undir­orpið, þá for­dæmi ég þessi dapur­legu um­mæli Ólafs. Það hlýtur að vera al­gjört grund­vallar­at­riði í lýð­ræðis­sam­fé­lagi að fólk geti tekið þátt í pólitískri um­ræðu án þess að öryggi þess sé ógnað eða frið­helgi heimilis og fjöl­skyldu rofin,“ sagði Hildur á Twitter.