Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist í samtali við Vísi líta skotárásina á bíl Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkurborgar, alvarlegum augum en um helgina fundust skot á hurð bílsins sem var lagður við heimili borgarstjórans. Sjálfur sagðist borgarstjórinn vera skelkaður vegna málsins.-
Að sögn Katrínar er umræðan um stjórnmálamenn oft á tíðum ekki málefnaleg þar sem þeir eru sakaðir um „hina verstu hluti.“ Hún segist þó ekki telja að lausnin sé að stjórnmálamenn víggirði sig heldur þurfi að skoða betur orsakir árásarinnar.
„Ég held við getum öll litið í eigin barm. Að sjálfsögðu bera stjórnmálamenn ábyrgð og þeir sem taka þátt í opinberi umræðu. Ég er ekki að tala fyrir því að fólk tjái sig ekki og hér sé ekki fullt málfrelsi. En horfum til þess sem er verið að segja um fólk,“ segir Katrín í samtali við Vísi.
Orðræðan sé hatursfull
Fjölmargir hafa nú fordæmt árásina, sem og fyrri skotárásir á skrifstofur stjórnmálaflokka, en lögreglan er enn með málin til rannsóknar. Meðal þeirra sem hafa fordæmt árásina er Viðreisn en flokkurinn segir það vera á ábyrgð allra að stemma stigu við hatursfullri umræðu.
Það eru þó ekki allir sammála um hvar sökin liggur í tengslum við málið en Ólafur Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði í gærkvöldi að „byltingin væri komin heim“ og Dagur þyrfti bara að taka því.
Aðrir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins hafa þó fordæmt ummæli Ólafs, til að mynda hefur Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kallað eftir því að málið verði tekið upp á fundi forsætisnefndar.
„Hafi það verið einhverjum vafa undirorpið, þá fordæmi ég þessi dapurlegu ummæli Ólafs. Það hlýtur að vera algjört grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að fólk geti tekið þátt í pólitískri umræðu án þess að öryggi þess sé ógnað eða friðhelgi heimilis og fjölskyldu rofin,“ sagði Hildur á Twitter.
Hafi það verið einhverjum vafa undirorpið, þá fordæmi ég þessi dapurlegu ummæli Ólafs. Það hlýtur að vera algjört grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að fólk geti tekið þátt í pólitískri umræðu án þess að öryggi þess sé ógnað eða friðhelgi heimilis og fjölskyldu rofin. https://t.co/aASAI58pOQ
— Hildur Björnsdóttir (@hildurbjoss) January 29, 2021