Lína Guð­laug ólst upp sem mikill lestrar­hestur og las hún meðal annars bækur Pearl S. Buck um Kína af gríðar­legum á­huga. Á þeim tíma lét hún sig dreyma um fjar­læg lönd en gat ekki í­myndað sér að hún myndi nokkurn tíma heim­sækja fjar­læga austrið. Ferða­lög hennar á ung­lings­árum voru ævin­týra­ferðir með lestum um Evrópu.

Árið 2003 var hún svo sest í breið­þotu á leið í sína fyrstu ferð til Kína. Hún hafði þá verið búin að ætt­leiða kín­verska stelpu og var á leiðinni út til að sækja hana. Hún segist muna mjög vel eftir því þegar hún sat í flug­vélinn og fylgdist grannt með á skjánum þegar vélin flaug yfir Úral­fjöllin í Rúss­landi. Þá hafi hún ein­mitt munað eftir gömlu korta­bókinni, vafinni í blá köfl­ótt hlífðar­plast eins og tíðkaðist á hennar yngri árum en strax í barna­skóla myndaði Lína sterk tengsl við landa­fræðina.

Lína Guðlaug segir að bókin hennar Rót hafi fyrst og fremst verið ástríðuverkefni.

Lína segir að ferðin hafi verið mjög eftir­minni­leg og á­standið í Kína nokkuð svipað því sem við þekkjum í dag. „Ég fer í mína fyrstu ferð til Kína þarna rétt eftir fyrsta SARS far­aldurinn. Ég var búin að bíða í tvo mánuði með að fá að leggja af stað því það var sama á­stand þá og er í dag. Landið var bara lokað.“

Fjórum árum seinna, árið 2007 var hún aftur á leiðinni til Kína í og í þetta skipti fékk hún að leiða litlu fimm ára stelpuna sína um borð í stóru breið­þotuna. Lína segir að sú ferð hafi verið nokkurs konar upp­spretta af bókinni hennar Rót, því það var ein­mitt þá sem hún byrjaði að afla sér allra þeirra heimilda sem enduðu í bókinni. Á­kvörðunin um að skrifa bókina hafi hins vegar komið mörgum árum seinna.

Í milli­tíðinni byrjaði Lína svo að læra Austur-Asíu­fræði við Há­skóla Ís­lands. Hluti af því námi felur í sér skipti­nám í Kína og skrifaði hún loka­rit­gerð sína um neyt­enda­markaðinn í Kína. Eftir að hafa lokið námi byrjaði Lína svo að skrifa bókina.

Lína segist alltaf hafa viljað fara í fram­halds­nám er­lendis en hafði aldrei haft tíma til þess hér áður fyrr. „Maður lætur ekkert setja sig í ein­hvern bás bara af því maður er kominn á ein­hvern aldur, hvort sem það er yngra fólk eða eldra fólk. Mér finnst mjög gott að vera smá fyrir­mynd og ég naut mín af­skap­lega vel sem skipti­nemi þó svo að allir krakkarnir þarna væru helmingi yngri en,“ segir Lína og hlær.

„Ég bara naut mín frá því ég lenti og þar til ég fór aftur heim, þrátt fyrir að þetta væri oft á tíðum gríðar­lega krefjandi. Námið var til dæmis alveg sér­stak­lega krefjandi en allt í tengslum við það að upp­lifa nýtt sam­fé­lag var bara ó­trú­lega spennandi,“ segir Lína.

Hún segist hafa fengið ein­stakt tæki­færi til að fylgjast með sam­fé­lagi takast á við miklar breytingar og að slíkt sé eitt­hvað sem þekkist ekki í okkar nú­tíma­sögu. Það brann mjög á henni að koma öllu því sem hún sá til skila á sem bestan hátt. Það skipti hana miklu máli að miðla þekkingu sinni á­fram.

„Mér finnst bara að það skipti miklu máli að það sé til brú og svo ræður þú hvort þú ferð yfir hana eða ekki."

Lína segir einnig að hún hafi fundið fyrir miklum á­huga frá öllum sem hún talaði við, hvort sem það var hér heima eða úti í Bret­landi. „Alls staðar var á­hugi á Kína, en það vantaði þekkingu og mér fannst ég hafa svo gríðar­mikla þekkingu sem ég vildi miðla.“ Hún bætir við að hún hafi einnig viljað draga upp það sem hún kallar rétta mynd af Kína, en ekki þessa ein­s­litu mynd sem svo margar hafa af landinu.

Upp­runa­lega hafði Lína ekki mikinn á­huga á Kína og var það ekki land sem snerti hana á neinn sér­stakan hátt. „Þegar ég var ung­lingur að alast upp þá hafði ég lítinn á­huga á Kína Maó­ismans og það var bara lítið rætt um Kína. Það eina sem ég man eftir varðandi tengsl Ís­lands við Kína er að það voru Kína-skór sem fengust í Hag­kaup og svo var reyndar haldin list­muna­sýning á Kjarvals­stöðum sem ég man vel eftir,“ segir Lína.

Hún segir að Ís­lendingar og Kín­verjar eigi margt sam­eigin­legt og hefur hún sér­stak­lega tekið eftir því eftir að hafa unnið með ís­lenskum hönnuðum. Á­kveðin minni­mátta­kennd hafi verið ríkjandi í báðum löndum og tíðkaðist það áður fyrr að fela upp­runa þjóðarinnar. Það var á­kveðin hugsun að með því að notast meira við er­lend nöfn þá ættu vöru­merki meiri mögu­leika á al­þjóð­legum markaði.

„Menn voru alltaf að fela ís­lenska upp­runann en núna er hann talinn styrk­leiki og það er kannski það sem tekur við í Kína í fram­tíðinni. Þó svo að nú­tíma­væðingin sé að eiga sér stað á ljós­hraða í Kína þá tekur alltaf tíma að byggja sjálfs­traust,“ segir Lína og bætir við að skortur á sjálfs­trausti eigi það til að skapa á­kveðinn þjóðar­rembing.

Ein af mörgum myndskreytingum eftir David Wardle úr bókinni Rót.

Að lokum segir Lína að bókin hennar Rót sé lýsandi dæmi um sam­band hennar við Kína. Hún tekur það fram að bókin hafi verið fyrst og fremst ást­ríðu­verk­efni og hún segi um­búða­laust frá. Það var skýr stefna hjá henni að lestur bókarinnar væri á­kveðin upp­lifun fyrir lesandann.

„Ég lít á mig sem brúarsmið á milli Ís­lands og Kína. Ég er að byggja brýr á milli menningar­heima og þessi brú var alveg svaka­lega löng og var átta ár í byggingu, sem er ekki mjög kín­verskt. Þeir hefðu örugg­lega byggt brú á átta dögum,“ segir Lína og brosir. „Mér finnst bara að það skipti miklu máli að það sé til brú og svo ræður þú hvort þú ferð yfir hana eða ekki. En ef þú hefur ein­hverja hæfi­leika eða þekkingu þá skiptir líka miklu máli að hafa sjálfs­traustið til að koma því á fram­færi.“