Peter Marki-Zay verður formannsfulltrúi stjórnarandstöðunnar í þingkosningum Ungverjalands í vor.

Marki-Zay er lítt þekktur á sviði alþjóðlegra stjórnmála en hann hefur undanfarin þrjú ár gegnt starfi bæjarstjóra í Hodmezovasarhely.

Hann verður formaður flokks sem sameinar sex aðra flokka og er eitt af slagorðum kosningarbaráttunnar "anyone but Orbán" eða hver sem er, nema Orbán.

Flokkur Orbán, Fidesz, hefur verið í meirihluta á ungverska þinginu frá 2010 og hefur flokknum tekist að knýja fram samþykki á ýmsum umdeildum lagafrumvörpum.

Fyrr á þessu ári samþykkti ríkisstjórn Ungverjalands umdeilda löggjöf þar sem það var fest í lög að bannað væri að sýna fólki undir átján ára aldri nokkuð efni sem innihéldi transfólk eða upplýsingar um transfólk.

Var því bætt við lagafrumvarp um hertar refsingar barnaníðinga en fjölmörg stjórnvöld og alþjóðlegar stofnanir hafa gagnrýnt þessa aðför að réttindum hinsegin fólks.

Hótanir framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins leiddu til þess að utanríkisráðherra Ungverjalands, Peter Szijjarto, minntist á það um daginn að Ungverjaland gæti gengið úr Evrópusambandinu vegna ofsókna.

En hver er þessi Marki-Zay? Honum er lýst á vef Al Jazeera sem manni sem aðhyllist engan flokk og henti því vel að sameina sex flokka með mismunandi skoðanir og sjónarmið.

Marki-Zay hefur um leið sagt að hann sé góður kostur fyrir þá sem aðhyllast vinstri flokka sem og hægri flokka en hann bjó um tíma í Bandaríkjunum og Kanada.

Hann hafði betur gegn Klara Dobrev í prófkjörinu og sagði að með samvinnu væri hægt að vinna sigur á næsta ári gegn Orbán sem hefur verið forsætisráðherra frá 2010.