Nú þegar fyrsta helgin í samkomubanni er skollin á lék okkur forvitni á að vita hvað fólk hefur fyrir stafni.

Hvað á að gera um helgina?

Á laugardaginn er Alþjóðlegi Downs dagurinn og þá ætlum við að vera í sitthvorum og litríkum sokkum. Það er hægt að gera það hvar sem er - líka í samkomubanni. Það væri jafnvel gaman að taka smá dans í stofunni og heima-karaókí. Syngja nokkur vel valin lög í fjarstýringuna - og muna að spritta hana svo vel.

Á sunnudaginn stefni ég á að setja upp svuntuna og elda lambahrygg með tilbehör. Helst væri ég til í að bjóða Ölmu, Víði og Þórólfi. Þau eiga skilið smá dekur og staðgóða máltíð í magann.

Alla jafna stefni ég líka á að fara í göngutúr daglega og valhoppa smá - það er ein besta æfingin til að koma blóðinu á góða hreyfingu. Og standa á haus lika.


Þurftirðu að breyta einhverjum plönum?

Já, ég átti að vera að fara í Ástarveislu eða brúðkaup á laugardag. En sú veisla verður í haust - líkt og margar aðrar veislur og viðburðir sem áttu að vera nú um þessar mundir. Mikið verður haustið okkar skemmtilegt.


Hvernig leggst samkomubannið í þig?

Ég er á því að við eigum að halda áfram að hitta góða og hrausta vini okkar og fjölskyldu þrátt fyrir samkomubann. Þetta er svolítið eins og í hruninu blessaða. Við förum að sjá fegurðina í litlu hlutunum. Hið ómerkilega hversdaglega verður merkilegt og jafnvel rómantískt. Sköpunarkraftur eykst og við verðum lausnarmiðuð - ef við viljum.

Hvað gerirðu til að halda andanum uppi þessa dagana?

Ég reyni að forðast að leyfa sjálfskipuðu veirusérfræðingunum að fá sem minnstu hlustun í mínum eyrum. Ég treysti framlínufólkinu okkar, elsku þríeykinu okkar. Ég treysti líka eigin innsæi mjög vel.


Ég reyni lika að leggja áherslu á það góða sem skapast í svona ástandi. Kórónaveiran er ákveðið sameiningartákn. Við erum flest í grunninn svo gott fólk sem sýnir öðrum náungakærleik þegar á reynir.