Kín­versk yfir­völd þrýsta á Banda­ríkin að taka geim­öryggi al­var­lega eftir að hafa rétt sloppið við tvo á­rekstra milli kín­versku geim­stöðvarinnar Tiangong og gervi­tungla á vegum SpaceX.

Á­rekstur hefði ógnað lífi geim­fara á stöðinni, segir Zhao Li­jan, tals­maður utan­ríkis­ráðu­neytis Kína, í sam­tali við frétta­stofu The Guar­dian.

Geim­stöðin þurfti í tví­gang að koma sér undan til að verða ekki fyrir gervi­tunglunum sam­kvæmt skýrslu sem kín­versk stjórn­völd sendu nefnd Sam­einuðu Þjóðanna um frið­sæla nýtingu geimsins. Einu sinni í júlí og aftur í októ­ber.

Skýrslan segir að litlu hafi munað að gervi­tunglin hefðu rekist á geim­stöðina og í bæði skiptin hafi stöðin þurft að breyta um stefnu til að forðast á­rekstra. Þar sem breytingin var ó­undir­búin hafi verið erfitt að meta á­hættur.

Rúm­lega sextán hundruð gervi­tungl hafa verið send út í geim af Star­link, deild innan SpaceX, fyrir­tæki Elon Musk. Fyrir­tækið hefur fengið leyfi frá banda­rískum yfir­völdum fyrir tólf þúsund gervi­tunglum. Gervitunglin eiga að tryggja net­sam­band á sem flestum stöðum á jörðinni.

Jon­a­t­han McDowell, stjarn­eðlis­fræðingur hjá Harvard-Smit­h­sonian Center for Astrop­hysics, segir lík­legt að á­rekstur við geim­stöðina myndi tor­tíma henni.

McDowell bætir við að kín­versk yfir­völd séu ekki al­sak­laus í þessu máli þar sem banda­ríska geim­stöðin hafi einnig þurft að breyta um stefnu til að forðast geimbrak úr til­raunum kín­verska hersins.

Í fyrsta sinn er farið að reyna á þol­mörk svæðisins þar sem magn geimbraks, gervi­tungla og fleira hafi aukist gríðar­lega á seinustu árum, að sögn McDowell. Það sé orðið anna­samt og þétt­skipað á braut um jörðina.