Ásta Margrét greindi frá upplifun sinni á samskiptamiðlum fyrr í dag en hún lenti í miður skemmtilegu atviki.

Kastalinn hrundi rétt eftir að barnið fór inn

„Ég fór með tveggja ára dóttur minni í Hljómskálagarðinn en það voru þarna margir hoppukastalar. Þar sem hún er bara tveggja ára þá fór ég með hana í minni kastalann. En þeir voru fyrir eins til fjögurra ára börn sagði starfsmaður mér,“ segir Ásta Margrét sem lýsir atvikinu í samtali við Fréttablaðið.

„Ég rétt næ að henda barninu mínu inn og þá fellur hoppukastalinn saman. Ég fattaði ekki alveg strax hvað gerðist en önnur móðir fattaði það á undan mér því hún hoppar inn til þess að ná í sinn son og hoppar yfir barnið mitt, í raun á hana,“ segir Ásta en dóttir hennar gat ekki komist út úr kastalanum sjálf og hefði því getað orðið undir í átökunum.

„Þeirra viðbrögð þegar hinir kastalarnir hrynja voru að öskra bara ,,allir út!" og svo hlaupa þeir í hringi í kringum kastalana og öskra á öll börnin að koma sér út,“

Sjö slösuðust á síðasta ári á Akureyri þegar hoppukastali fauk á sumarhátið.
mynd/Aðunn

Of fáir og of ungir starfsmenn

Starfsmenn voru af skornum skammti segir Ásta en aðeins einn starfsmaður var við hvern hoppukastala.

„Þessi starfsmaður sem var við okkar kastala virtist vera fullorðinn einstaklingur en mjög ung stúlka samt. En við hina kastalana, sem fóru líka niður, þar voru bara fimmtán til sextán ára strákar,“ segir Ásta og tekur fram að fleiri kastalar hafi svo skömmu síðar fallið niður með þeim afleiðingum að starfsmenn hafi í óðagoti reynt að fá börnin út.

„Þeirra viðbrögð þegar hinir kastalarnir hrynja voru að öskra bara "Allir út!" og svo hlaupa þeir í hringi í kringum kastalana og öskra á öll börnin að koma sér út,“ segir Ásta og heldur áfram

„Það var svolítið eins og strákarnir hreinlega hefðu ekki þroska til þess að takast á við svonalagað, enda náttúrulega bara unglingar. Það hefðu kannski frekar átt að vera fullorðnir aðilar sem sáu um þetta,“ segir hún.

Segja að rafmagnið hafi gefið sig

Ásta segir að þær útskýringar sem hún hafi heyrt á því hvers vegna kastalarnir hrundu hafi verið að of margir hoppukastalar hefðu verið tengdir við sama rafmagnsgeyminn svo ekki hefði verið nægilegt afl til þess að halda þeim öllum gangandi á sama tíma.

„Það hefði þannig mögulega þurft að plana þetta betur og helst hafa fullorðan aðila sem hafa þarna umsjá,“ segir Ásta um málið.