Nær allt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna elds í Hjallahverfi í Kópavogi á fjórða tímanum í nótt.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði kviknaði eldurinn á yfirbyggðum svölum í raðhúsi og hafði eldur borist í þak hússins. Töluverður eldur var í húsinu og litlu mátti muna að hann myndi teygja sig inn í íbúðina.

Tilkynning barst um eldinn klukkan 03:10. Var heimilisfólk komið út úr íbúðinni þegar slökkvilið kom á staðinn og varð ekki meint af. Þurfti því ekki að flytja það á slysadeild en töluvert tjón varð af eldsvoðanum.

Slökkvistarfi lauk á fimmta tímanum í morgun og eru eldsupptök ókunn.