Til þess að tryggja það að barni líði vel og það geti þroskast og dafnað sem skyldi er mikilvægt að hlúa að þessum grunnþörfum. Efst á lista er svefn en skertur svefn hefur víðtæk neikvæð áhrif á einstakling. Langvarandi svefnleysi hefur margvísleg neikvæð áhrif á andleg og líkamleg lífsgæði, svo sem einbeitingarleysi og eirðarleysi.

„Ef barn sýnir óæskilega hegðun eða hegðunarvanda er mikilvægt að tryggja að það fái góðan svefn. Þrátt fyrir að það sé ákveðin einföldun og alls ekki alltaf ástæðan fyrir vanlíðan barns þá er góður svefn einn mikilvægasti þáttur í að einstaklingi geti liðið vel. Ef grunnþörfum einstaklings er ekki sinnt er erfitt að leggja áherslu á aðra þætti,“ segir Guðrún.

Niðurstöður kannana sem miða við alþjóðlegar ráðleggingar benda til þess að eitt af hverjum fjórum börnum nái ráðlögðum svefni á sama tíma og eitt af hverju níu börnum nái bæði að sofa og hreyfa sig eins og viðmið segja til um.

„Erfiðleikar tengdir svefnvenjum og langvarandi svefnleysi eykur líkur á sálrænum kvillum á borð við kvíða og þunglyndi. Rannsóknir sýna að þeir sem uppfylla ekki svefnþörf sína finna frekar fyrir depurð en þeir sem sofa nóg,“ segir Guðrún. „Með því að tryggja að barn fái nægan svefn má auka líkurnar á því að aðrir þættir gangi strax betur í framhaldinu. Við sem foreldrar þurfum að vera fyrirmyndir og einnig tryggja það að við fáum nægan svefn. Það skiptir miklu máli að kenna líkamanum að fara að sofa og að hann þekki hvenær er kominn svefntími, þar kemur rútínan sterk inn. Ef þú gerir alltaf sömu hlutina rétt fyrir svefn þá stillir líkaminn sig inn á það.“

Í niðurstöðum könnunar um heilsu og líðan sem Lýðheilsustöð gerði í samvinnu við Embætti landlæknis kemur fram að fjórðungur fullorðinna einstaklinga á aldrinum 18-44 ára sefur minna en sex klukkustundir á nóttu. Að meðaltali ættu einstaklingar á þeim aldri að sofa í 7-9 klukkustundir.

„Í svefni er líkaminn að endurnýja sig, gera við sig og stilla til. Ef ekki er sofið á þeim tíma sem líkaminn reiknar með að sé nótt, þá nær hann ekki að klára sína vinnu. Við það geta mörg kerfi í líkamanum sýnt álagsmerki. Það sem við sjáum fljótt er að adrenalín eykst, sækni í orkuríkan mat, pirringur og árekstrar verða í daglegu lífi, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Tryggvi.

Guðrún og Tryggvi draga saman nokkur góð atriði hér fyrir neðan sem foreldrar geta stuðst við til að halda barni sínu í góðri rútínu.