Björgunar­fólki hefur enn ekki tekist að komast að hinum tveggja ára Julen Roselló, sem féll ofan í bor­holu í suður­hluta Spánar síðast­liðinn sunnu­dag. 

Allra leiða er leitað til þess að komast að drengnum en bor­holan er 107 metra djúp og of þröng til þess að koma full­orðnum ein­stak­ling þangað niður. Þá hefur jarð­vegur riðlast til svo ekki hefur tekist að koma mynda­vélum alla leið niður, en erfið­lega hefur gengið að færa jarð­veginn sökum hættu á að hann hrynji. 

Fjöldi sér­fræðinga leggur björgunar­fólki lið. Þeirra á meðal er hópur Svía og Austur­ríkis­manna sem tók þátt í að bjarga 33 sí­leskum námu­verka­mönnum þegar námujarð­göng hrundu þar í landi árið 2010. Verka­mennirnir sátu þá fastir í 69 daga. Hins vegar er óttast að tíminn sé nú á þrotum og er allt kapp lagt á að komast að drengnum eins hratt og örugg­lega og auðið er. 

Julen féll ofan í holuna þegar hann var að leik í To­ta­lan, sem er skammt frá Malaga á Spáni, fyrir fimm dögum síðan. 

„Sonur minn er þarna niðri – ekki láta neinn efast um annað. Ég vildi óska þess að svo væri ekki, en ég heyrði í honum. Ég vildi óska þetta hefði verið ég sem féll þarna niður, svo Julen gæti verið hér hjá móður sinni,” sagði faðir Julens, José Roselló, í sam­tali við spænska fjöl­miðla í gær.