Jafnaðarmannaflokkurinn í Þýskalandi (SPD) hefur átt undir högg að sækja um nokkurra ára skeið, en nú virðist allt í blóma. Flokkurinn var sigurvegari þingkosninganna þar í landi í lok september, reis úr 15 prósenta fylgi í vor upp í 25 prósenta fylgi í kosningunum, hlaut mest fylgi allra flokka og stefnir nú hraðbyri í ríkisstjórn. En hvernig stendur á þessum skyndilegu sviptingum?

Rólyndismaðurinn Olaf Scholz, kanslaraefni Jafnaðarmannaflokksins, er ein helsta ástæða þess, en skömmu fyrir kosningar sagðist tæplega helmingur þýskra kjósenda vilja Scholz sem næsta kanslara. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, gaf út fyrir kosningarnar að hún hygðist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu. Nú virðist allt benda til þess að stórum hluta Þjóðverja verði að ósk sinni, en tilkynnt hefur verið um ríkisstjórnarsamstarf Jafnaðarmanna, Græningja og Frjálslyndra demókrata. Það stefnir því í töluverðar breytingar á hinu pólitíska sviði Þýskalands.

Scholz ásamt Angelu Merkel, núverandi kanslara.
Fréttablaðið/Getty

Mikið persónufylgi Scholz kemur þó mörgum töluvert á óvart, en hann verður seint talinn með skemmtilegri mönnum, af þeim sem þekkja til hans. Hann er þekktur fyrir að vera nokkuð litlaus og hefur gjarnan verið líkt við vélmenni, en rólyndislegt fas hans hefur gert hann að skotspæni pólitískra andstæðinga, sem og stuðningsmanna síns eigin flokks. Það má því ef til vill ekki búast við því að hann haldi uppi stuðinu í ríkisstjórninni, að minnsta kosti ekki með áfengi, enda annálaður bindindismaður, en mikilvægt er að stemma stigu við stuðboltana sem almennt hafa einkennt þýsk stjórnmál síðustu ár.

Scholz leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna og hyggst framfylgja kosningaloforði sínu um jafna kynjaskiptingu ríkisstjórnarinnar þegar hann tekur við em­bætti kanslara. Þá er hann einarður stuðningsmaður ESB, vill róttækari aðgerðir í loftslagsmálum, hyggst hækka lágmarkslaun og lögleiða kannabis.