Eins og fram kom í frétt Fréttablaðsins í gær hefur danska ríkisstjórnin hætt við áform sín um að heimila ferðaskrifstofum að endurgreiða þeir ferðir sem aflýst var vegna kórónaveirufaraldursins með inneignarnótum eða að fresta peningagreiðslum um allt að eitt ár. Var þar vitnað til ályktunar Evrópusambandsins þar að lútandi þar sem fram kemur að slíkt samræmist ekki lögum og reglum sambandins um málið.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, tjáði sig um málið í færslu á facebook-síðu sinni síðdegis í dag.

„Fjölmiðlar sögðu frá því í dag að Evrópusambandið hefði „úrskurðað“ að ekki gengi upp að ferðaskrifstofur endurgreiddu viðskiptavinum með inneignarnótum í stað peninga. Ég er ekki viss um að þetta sé rétt orðalag í fréttum. Vísað er í skjal frá upplýsingaskrifstofu Evrópuþingsins sem hefur fyrirsögnina „EU Rules on Vouchers“. Hægt væri að skilja það sem „úrskurð“ en orðið „rules“ virðist þarna merkja „reglur“. Skjalið virðist vera yfirlit um gildandi reglur og helstu sjónarmið um mögulegar breytingar á þeim. Það hefur alltaf legið fyrir að reglurnar kveða á um skyldu til að endurgreiða í peningum og að ESB væri tregt til að breyta því," segir Þórdís Kolbrún í færslu á facebook-síðu sinni.

„Það sem er þó nýtt í málinu er að danska ríkisstjórnin er hætt við að leyfa ferðaskrifstofum að endurgreiða með inneignarnótum. Ákvörðun um þetta var kynnt með vísun til afstöðu ESB. Til upprifjunar hafa fjölmörg Evrópulönd á undanförnum vikum lýst yfir vilja til að koma til móts við ferðaskrifstofur með því að leyfa þeim að endurgreiða með inneignarnótum, þrátt fyrir Evrópureglurnar. Í mörgum tilvikum hefur þó meira verið um orð og yfirlýsingar en aðgerðir, eins og afdrif dönsku leiðarinnar eru dæmi um," segir ferðamálaráðherrann enn fremur.

„Ég lagði þetta sama til í frumvarpi til laga sem er til meðferðar á Alþingi. Það var ekki sjálfgefið að gera það, enda vegast í málinu á sterk rök á báða bóga, annars vegar um rétt neytenda og hins vegar um þá staðreynd að sá neytendaréttur var alveg ábyggilega ekki lögfestur með þá fordæmalausu stöðu í huga sem nú er komin upp, algjöra stöðvun ferðaþjónustunnar og yfirvofandi gjaldþrot margra ferðaskrifstofa sem krafðar væru um fullar endurgreiðslur án þess að fá nokkrar tekjur á móti. – Enda var frumvarpið mjög umdeilt, sem var að sjálfsögðu fyrirséð.

Staða ferðaskrifstofa er mjög mismunandi. Þær eru misstórar og standa misvel fjárhagslega. Sumar selja erlendum ferðamönnum ferðir hingað, aðrar selja Íslendingum ferðir út. Vandinn er mismikill á milli fyrirtækja en ljóst er að neytendarétturinn verður einhverjum þeirra ofviða að óbreyttu. Mögulegt hefði verið að koma til móts við báðar hliðar málsins á kostnað skattgreiðenda, með því að aflétta ekki bara skyldunni um endurgreiðslu í peningum af fyrirtækjunum heldur innleiða samtímis ríkisábyrgð á kröfum neytenda. Niðurstaðan var að gera það ekki," segir ráðherrann.

„Samhliða því sjáum við vísbendingu um að verið sé að hverfa frá þessari leið í nágrannalöndunum, samanber nýjustu tíðindi frá Danmörku. Hugsanlega er þar að baki pólitísk ákvörðun innan ESB um að hvika hvergi frá sameiginlegu reglunum og sá möguleiki er auðvitað alltaf til staðar að gripið verði til aðgerða gegn löndum sem víkja frá þeim.

Í þriðja lagi hafa aðstæður breyst frá því að frumvarpið var samið og lagt fram. Þá var allt eins útlit fyrir að engin eða nær engin ferðalög yrðu á milli landa fyrr en í haust eða vetur. Nú sjáum við að lönd eru að opna landamæri sín nú þegar eða eftir nokkra daga, miklu fyrr en talið var líklegt fyrir fáeinum vikum. Það þýðir væntanlega að ferðaskrifstofur standa frammi fyrir færri afbókunum en ella og geta líka selt nýjar ferðir fyrr en ella. Þrátt fyrir það er mér vel ljóst að sum þeirra standa frammi fyrir mjög alvarlegri stöðu, þó að staða þeirra sé ólík eins og áður segir.

Ég hef staðið með frumvarpinu eins og það var lagt fram en það hefur ekki stuðning. Ég geri því ekki ráð fyrir að þingið afgreiði það. Mér sýnist nú ljóst að frumvarpið sem ég lagði fram hafi ekki meirihlutastuðning á Alþingi. Til lengri tíma er verkefni okkar að kanna hvort breyta megi fyrirkomulagi ferðaskrifstofutrygginga til að minnka líkur á að þessi staða komi upp aftur," segir hún um framhaldið.