Ólíkt stærri íbúðum halda íbúðir undir 80 fermetrum á höfuðborgarsvæðinu áfram að hækka í verði.

Í júlí mældist meðal fermetraverð fjölbýla í þessum stærðarflokki nærri 826 þúsund krónur, miðað við 819 í júní að því er fram kemur í fasteignamælaborði Deloitte.

Fyrir ári síðan var fermetraverðið tæplega 651 þúsund og hefur það því hækkað um tæplega 27 prósent. Mest var hækkunin í marsmánuði, 70 þúsund krónur.

Vatnsmýrin og Skerjafjörðurinn eru dýrasta hverfið fyrir litlar íbúðir. Þar er verðið farið að nálgast eina milljón, var í júlí 976 þúsund krónur. Smára-, Linda- og Salahverfi í Kópavogi eru ekki langt undan með 970 þúsund króna fermetraverð en Grafarholtið og Úlfarsárdalurinn eru í þriðja sæti með 918 þúsund. Ódýrustu smáu íbúðirnar finnast í Breiðholtinu, þar sem fermetraverðið er 639 þúsund krónur.

Ýmsir hagfræðingar hafa spáð því að fasteignaverð muni fara lækkandi með haustinu og vísað í þróun erlendis og hækkandi vaxtastig því til stuðnings. Samkvæmt mælaborði Deloitte á það við rök að styðjast þegar kemur að stórum og millistórum íbúðum.

Í júlímánuði hrapaði fermetraverð stórra íbúða, yfir 120 fermetra, úr 704 þúsund krónum í 660. Það er lækkun um rúmlega 6 prósent. Eftir stanslausar hækkanir síðan um áramót lækkaði fermetraverð meðalstórra íbúða á höfuðborgarsvæðinu, 80 til 120 fermetra að stærð, örlítið. Fór það úr 689 þúsundum í 687.

Þetta þýðir að í heildina er lækkun á verði fjölbýliseigna en sérbýli heldur áfram að hækka. Í júlí mældist fermetraverðið 645 þúsund krónur og skipti þar mestu hækkun lítilla sérbýliseigna, undir 200 fermetrum.