Steinunn Gunnlaugsdóttir listakona hefur ekki látið lögreglu vita af skemmdarverki sem virðist hafa verið unnið á verki hennar, Litlu hafpulsunni, seint í gærkvöldi. Steinunn er sjálf stödd í Þýskalandi en hefur fylgst með pulsunni reglulega í gegnum vefmyndavél. Í samtali við Fréttablaðið segir hún pulsuna hafa vakið mikil viðbrögð og hún íhugi nú næstu skref.

Skoðaði myndir úr öryggismyndavél

Steinunn hefur, sem fyrr segir, haft auga með Litlu hafpulsunni í gegnum vefmyndavél nærri Tjörninni. Hún segist hafa skoðað upptökur úr myndavélinni frá því í gær og í nótt, en ógerlegt sé að sjá nákvæmlega hver var að verki, eða hvað átti sér stað þegar pulsan féll. 

Sjá einnig: Litla hafpulsan aflimuð

„Ég hef verið að fylgjast með verkinu í óveðri, en það er úr sterku plasti og brotnar mjög ólíklega af sjálfu sér,“ segir Steinunn í samtali við Fréttablaðið í morgun. Öryggismyndavélin sem Steinunn skoðar sýnir þó einungis mynd á tveggja mínútu fresti. „Maður sér þetta ekki gerast, en ég sé bara verkið og svo skyndilega er það brotið.“

Bendir bendir hún á að ekki þurfi mikinn tíma eða afl til þess að brjóta verkið, sem er úr sterku plasti. „Það hefur varla þurft nema nokkur spörk, ef þú kannt að sparka almennilega.“ Tjörnin hefur verið frosin síðustu daga og því auðveldara að komast að pulsunni en ella. 

Rúllar boltanum til Reykjavíkurborgar

Steinunn segist ekki hafa látið lögreglu vita af skemmdarverkinu en segist vera að íhuga næstu skref. Brotum úr verkinu hefur verið bjargað og er komið í öruggar hendur, en nærveru pulsunar hefur verið óskað í Kaupmannahöfn þar sem hún fengi að fljóta í ró og spekt á danskri tjörn. 

„Ég þarf að hugsa næstu skref, en það væri hægt að setja brotin saman og heiðra þessa reynslu hennar. Henni hefur verið boðið til Kaupmannahafnar til þess að vera til sýnis úti í vatni þar svo það er bara spurning hvað maður gerir.“

Steinunn segist einnig vilja rúlla boltanum til Reykjavíkurborgar, en starfsmenn Ráðhússins hafa fengið að njóta nærveru Litlu hafpulsunnar síðustu vikur. 

„Miðað við hvað hún fékk mikil viðbrögð langar mig svolítið að velta boltanum til Reykjavíkurborgar, en það er kannski ástæða fyrir þau að finna henni varanlegan stað og koma henni í betra efni. Þá fengi hún framhaldslíf, til dæmis með því að setja hana í málm og finna henni stað á Tjörninni,“ segir hún. 

Litla hafpulsan vakti mikla kátínu er hún birtist skyndilega á Tjörninni fyrr í vetur. Verkið var hluti af listahátíðinni Cycle. Steinunn segir verkið hafa verið sitt framlag til hundrað ára fullveldisafmælis Íslendinga, sem var um síðustu helgi. 

„Hún virðist tala til fólks og ég held hún myndi alveg halda áfram að gleðja í nýju formi. Eftir að það fraus þá fylgdist ég með henni reglulega og sá endalaust af fólki stilla sér upp með henni til að taka myndir.“