Litla Grá og Litla Hvít tóku í gær sín fyrstu sundtök í Klettsvík sem fyrirætlað er að gera að nýjum griðastað þeirra.

Mjaldrarnir hafa verið þar í umönnunarlaug frá því í byrjun ágúst þar sem þeir hafa aðlagast nýju umhverfi undanfarnar vikur undir ströngu eftirliti. Var það í fyrsta sinn sem mjaldrarnir voru í náttúrulegu umhverfi frá því að þeir voru fluttir frá rússneskri hvalrannsóknarstöð árið 2011.

Í gær var Litlu grá og Litlu Hvít í fyrsta sinn leyft að kanna ný heimkynni sín. Að sögn Sea Life Trust er skrefið hluti af varfærnu ferli þar sem þeim er leyft að kanna sífellt stærri hluta Klettsvíkur milli þess sem þær eru fluttar daglega í umönnunarlaug þar sem eftirlit verður haft með heilsu þeirra og líðan.

Frá flutningi systranna í ágúst.
Mynd/Sea Life Trust

Í sjöunda himni með mjaldrasysturnar

Fram kemur í tilkynningu frá Sea Life Trust að aðlögun mjaldrasystranna hafi gengið vel frá því að þær voru fluttar úr innilaug sinni í Heimaey.

„Við erum í sjöunda himni yfir árangrinum sem Litla Grá og Litla Hvít hafa sýnt eftir að þær voru færðar úr innilauginni. Mjaldrarnir hafa verið að nærast og gengið vel að aðlagast veðurfari og hinum náttúrulegu heimkynnum,“ er haft eftir Andy Bool, formanni Sea Life Trust í tilkynningu.

Þá er haft eftir Cathy Williamson hjá dýraverndarsamtökunum Whale and Dolphin Conservation að það sé fagnaðarefni að Litla Grá og Litla Hvít séu byrjaðar að kanna svæðið og að þeim gangi vel að aðlagast nýjum aðstæðum.

Segist hún vona að þetta verði til þess að fleiri af þeim 3.500 hvölum og höfrungum sem séu í haldi manna verði fluttir á griðastaði þar sem dýrin geti lifað eðlilegra lífi eða hlotið endurhæfingu sem búi þau undir að verða sleppt út í náttúruleg heimkynni.

We're delighted to share the video you’ve been waiting for - Little White and Little Grey exploring Klettsvik Bay for...

Posted by SEA LIFE Trust Beluga Whale Sanctuary on Monday, September 28, 2020