Mjöldrunum Litlu Grá og Litlu Hvít var komið fyrir í varan­legum heim­kynnum sínum í Kletts­vík síðast­liðinn föstu­dag. Hópur sér­fræðinga og dýra­lækna kom að flutningnum.

Búið er að stað­festa að systurnar eru við hesta­heilsu og nærast vel eftir þessa stuttu ferð frá landi og út í kvínna. Þær verða undir stöðugu eftir­liti sér­fræðinga meðan þær að­lagast að­stæðum í hafinu.

Litla Grá og Litla Hvít eru nú stað­settar í um­önnunar­laug í kvínni þar sem þær að­lagast nýjum heim­kynnum áður en þeim er endan­lega sleppt út í kvínna sem stað­sett er við mynni Vest­manna­eyja­hafnar.

Litla Hvít og Litla Grá hafa ekki verið í náttúrulegu umhverfi í nærri áratug.
Mynd/Sea Life Trust

Framar björtustu vonum

„Þetta er í fyrsta skipti sem Litla Grá og Litla Hvít eru í náttúru­legu um­hverfi í hafinu síðan þær voru fluttar frá rúss­neskri hvala­rann­sóknar­stöð árið 2011,“ segir í til­kynningu SEA LIFE Trust.

„Eftir miklar æfingar og undir­búning þá er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi allt gengið betur en við þorðum að vona. Nú tekur við að­lögun undir ströngu eftir­liti sér­fræðinga og dýra­lækna. Ég á von á að við getum flutt fréttir af því þegar þeim verður endan­lega sleppt út í kvínna fljót­lega,” er haft eftir Andy Bool, for­stjóra SEA LIFE trust.

Teymi fólks kom að flutningunum.
Mynd/Sea Life Trust
Mjöldrunum var nokkuð brugðið við flutningana til að byrja með.
Mynd/Sea Life Trust
Litla Hvít og Litla Grá hafa ekki verið í náttúrulegu umhverfi í nærri áratug.
Mynd/Sea Life Trust