Litla fisk­búðin Hellu­hrauni var oftast með lægsta verðið í könnun verð­lags­eftir­lits ASÍ á fisk­meti sem fram­kvæmd var þann 4. maí síðast­liðinn. Í til­kynningu frá ASÍ vegna könnunarinnar kemur fram að al­gengast hafi verið að 20 til 40 prósenta munur væri á kíló­verði á fiski.

Í til­kynningu ASÍ kemur fram að verð­töku­fólki verð­lags­eftir­litsins hafi verið meinað að taka niður verð hjá fimm fyrir­tækjum: Fisk­búðinni Haf­berg, Fisk­búð Fúsa, Fisk­búðinni Vega­mót, Fylgi­fiskum Ný­býla­vegi og Mela­búðinni.

Í 13 til­fellum af 27 var 600 til 800 króna munur á hæsta og lægsta kíló­verði og í jafn mörgum til­fellum nam verð­munurinn 900 til 1.200 krónum.

„Sem dæmi um mikinn verð­mun má nefna 58% mun á hæsta og lægsta kíló­verði af þorsk­flökum, 107% mun á kíló­verði af rauð­sprettu­flökum, 65% mun á kíló­verði af fisk­rétti með löngu og 52% mun á kíló­verði af plokk­fiski,“ segir í til­kynningu ASÍ.

Sem fyrr segir var Litla fisk­búðin Hellu­hrauni oftast með lægsta verðið í könnuninni, eða í 18 til­fellum. Næst oftast var Fisk­búð Sjávar­fangs á Ísa­firði með lægsta verðið, eða í 4 til­fellum. Hafið og Fisk­búð Suður­lands voru oftast með hæsta verðið, í 10 til­fellum hvor um sig.

Í til­kynningu ASÍ kemur fram að mestur verð­munur á ferskum fiski í könnuninni hafi reynst vera 107 % munur á hæsta og lægsta kíló­verði á rauð­sprettu­flökum með roði. Skaga­fiskur Akra­nesi var með hæsta verðið, eða 3.490 kr./kg og Litla Fisk­búðin Hellu­hrauni var með lægsta verðið, 1.690 kr./kg.

Þá er þessi getið að mikill verð­munur hafi verið á harð­fiski á milli verslana.

„Sem dæmi er 188% munur á hæsta og lægsta kíló­verði á þurrkaðri ýsu með roði þar sem Fisk­búðin Mos­fells­bæ var með hæst verð 15.500 kr./kg og Fisk­búð Suður­lands Sel­fossi með lægsta verð, 5.380 kr./kg. Þá reyndist vera 100% verð­munur á þurrkuðum Stein­bít með roði. Hæsta verðið var hjá Fisk­búðinni Trönu­hrauni, 17.500 kr./kg en það lægsta hjá Fisk­búð Sjávar­fangs Ísa­firði, 8.750 kr./kg.“

Kannað var verð á 31 al­gengum tegundum fiska­furða. Könnunin var gerð á fiski og fiska­furðum í 18 fisk­búðum og öðrum verslunum með fisk­borð mið­viku­daginn 4. maí 2022.

Könnunin var fram­kvæmd í eftir­töldum verslunum: Litlu fisk­búðinni Hellu­hrauni, Fisk­búðinni Trönu­hrauni, Fiski­kónginum, Fisk­búðinni Sund­lauga­vegi, Fisk­búð Hólm­geirs, Fisk­búðinni Mos, Hafinu Fisk­verslun, Fiski­búðinni Hóf­gerði, Skaga­fiski Akra­nesi, Fisk­búð Sjávar­fangs Ísa­firði, Fisk Kompaní Akur­eyri, Kjöt og fisk­búð Austur­lands Egils­stöðum, Fisk­búð Suður­lands Sel­fossi og Fisk­búð Reykja­ness. Könnunin var einnig fram­kvæmd í fisk­borðum Fjarðar­kaups, Hag­kaups og Mela­búðinni.