Heilbrigðisráðherra hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hún leggur fram frumvarp um breytingar á sóttvarnalögum í kjölfar úrskurða sem kveðnir voru upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Með úrskurðunum voru felldar úr gildi ákvarðanir sóttvarnalæknis um skyldu nokkurra einstaklinga til að dvelja í sóttvarnahúsi eftir komu til landsins frá áhættusvæðum.

Úrskurðirnir hafa verið kærðir til Landsréttar og segir ráðherra að ekki verði tekin ákvörðun um framhaldið og mögulegar lagabreytingar fyrr en niðurstaða Landsréttar liggur fyrir. Á meðan niðurstöðunar er beðið sé þó verið að skoða ýmsa möguleika í ráðuneytinu.

„Við erum bæði að skoða og velta upp möguleikum varðandi laga- og regluverkið en líka framkvæmdina,“ segir Svandís. Til skoðunar sé meðal annars famkvæmd ákvarðana um sóttkví, aðgerðir til að tryggja að fólk haldi sóttkví og aðgerðir á landamærum. „Við erum með þetta allt undir núna, erum bara að fara yfir þetta en erum í hálfgerðu millibilsástandi,“ segir Svandís og vísar til kærunnar sem til meðferðar er hjá Landsrétti.

Lögvarðir hagsmunir í málinu gætu runnið út

Svandís segist ekkert geta sagt til um hvenær niðurstöðu sé að vænta í Landsrétti, enda ekki hennar að svara því. Hún segist þó gera ráð fyrir að fjalla þurfi um málið á meðan einhverjir lögvarðir hagsmunir eru í málinu, en fyrir liggur að þeir sem úrskurðir dómstóla geta tekið til eiga að fara í seinni skimun á morgun og geti átt von á niðurstöðu síðdegis á morgun. Gera má ráð fyrir að Landsréttur þurfi að úrskurða fyrir þann tíma, eigi hann að hafa einhver réttaráhrif.

Aðspurð segir Svandís að í ljósi þess hve stórar spurningar séu undir í málinu hafi í raun verið ótækt annað en kæra málið áfram til Landsréttar.

Lítil stemning fyrir lagabreytingum í nefndinni

Svandís sat fyrir svörum hjá velferðarnefnd Alþingis í morgun ásamt sóttvarnalækni og ýmsum sérfræðingum sem nefndin boðaði á fund. Þeir nefndarmenn sem Fréttablaðið ræddi eftir fjögurra klukkustunda langan fund nefndarinnar, telja litlar líkur á almennum stuðningi í nefndinni við breytingar á sóttvarnalögum.

„Við erum aðeins að hinkra eftir næstu skrefum hjá ráðuneytinu,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, um mögulegar breytingar á lögunum.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Ég efast um að slíkt frumvarp geti komið frá velferðarnefnd. Til þess að frumvarp geti komið frá nefndinni þurfa allir nefndarmenn að vera sammála um það,“ bætir Helga Vala við.

Hún segir að málið hafi verið rætt fram og til baka á fundinum í dag og hluti gesta nefndarinnar hafi lýst miklum áhyggjum af stöðu faraldursins. Margar vélar séu væntanlegar til landsins frá áhættusvæðum. Þá sé nýtekið gildi nýtt reglugerðarákvæði um farþega utan Shcengen og liggja þurfi fyrir hvaða áhrif vottorð þeirra eigi að hafa.

Lagabreyting skapi einungis önnur vandamál

Halldóra Mogensen fulltrúi Pírata í nefndinni segir ýmis sjónarmið hafa komið fram hjá gestum nefndarinnar, bæði að best væri að fara þá leið að breyta lögunum en einnig að það borgi sig ekki.

„Þau sjónarmið komu líka fram hjá sérfræðignum sem komu fyrir nefndina að við ættum ekki að breyta lögunum, það myndi bara búa til önnur vandamál gagnvart stjórnarskrárvörðum réttindum og meðalhófi.

„Mér finnst nokkuð ljóst að þessi reglugerðarsetning er klúður. Það er á ábyrgð stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar. Burt séð frá því hvað fólki finnst um nauðsyn aðgerðarinnar þá er það frumskylda ráðherra að grípa ekki til aðgerða annarra en þeirra sem hún hefur heimild fyrir í lögum,“ segir Halldóra. Hún segir vilja löggjafans hafa verið skýrann í þessu efni.

Halldóra Mogensen er fulltrúi Pírata í velferðarnefnd. Hún kallaði eftir fundi í velferðarnefnd um málið, áður en úrskurðir héraðsdóms í málinu voru kveðnir upp.

Vilji löggafans skýr

„Mér finnst vilji löggjafans hafa verið skýr með skilgreiningu á sóttvarnahúsi en skilgreiningin kom inn í lögin að frumkvæði velferðarnefndar í nefndaráliti sem allir nefndarmenn skrifuðu undir.“

Af nefndarálitinu sé ljóst að það hafi ekki verið hugsunin að allir sem kæmu til landsins yrðu skikkaðir í sóttvarnahús heldur að þeir sem eigi heima á Íslandi gætu verið í sóttkví heima hjá sér en þeir sem ekki hafi öruggan samastað skuli dvelja í sóttvarnahúsi.

„Ég er til að mynda alveg sammála nauðsyn heimkomusóttkví en ekki í þessari framkvæmd,“ segir Halldóra. Svara þurfi því hvort ekki sé unnt að velja vægari úrræði en að frelsissvipta fólk, til dæmis aukið eftirlit með því að sóttkví sé virt.

Halldóra er sammála formanni nefndarinnar um að það virðist ekki vera stemning fyrir breytingum á sóttvarnalögum í nefndinni en tekur fram að það hafi ekki komið til formlegrar umræðu í nefndinni.

Bæta þurfi framkvæmdina ekki lögin

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í velferðarnefnd er þeirrar skoðunnar að bæta þurfi framkvæmd laganna fremur en breyta þeim aftur.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir skiptar skoðanir um málið í öllum flokkum. Flestir sjálfstæðismenn séu andvígir svo íþyngjandi úrræði að frelsisvipta fólk.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Ég held það sé hægt að bæta framkvæmdina heilmikið bæði með eftirliti og aukinni upplýsingagjöf,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir skiptar skoðanir um þetta í öllum flokkum. Honum virðist þó flestir vera á þeirri skoðun að kanna beri til hlítar hvort aðrar og vægari leiðir séu færar í framkvæmdinni en skikka fólk í sóttvarnahús. Einhverjir telji þó nauðsynlegt að styrkja heimildir í lögum, svo mikið sé í húfi.

Vilhjálmur leggur hins vegar áherslu á að skilyrði stjórnarskrár um meðalhóf og jafnræði hverfi ekki þótt þótt reglugerðarákvæðinu verði veitt lagastoð. Ef lögunum verði breytt aftur þurfi þær breytingar að standast stjórnarskrá.

„Ég held það sé hægt að bæta framkvæmdina heilmikið bæði með eftirliti og aukinni upplýsingagjöf,“ s

Markmið aðgerða verði að vera skýrari

Þá kallar Vilhjálmur eftir því að markmið aðgerða séu sett fram með skýrari hætti en gert hefur verið. Sé markmiðið að unnt verði að slaka á kröfum innanlands þurfi aðgerðirnar að vera til þess fallnar að ná því markmiði. Þá sé fólk mun líklegra til að sýna aðgerðum stjórnvalda skilning ef það liggur fyrir hvert markmiðið er.

Þeir fulltrúar í nefndinni sem Fréttablaðið ræddi við eru almennt sammála um að markmið aðgerða þurfi að koma skýrar fram. Það þurfi að liggja fyrir hvort markmiðið er enn að halda smitum í lágmarki til að vernda heilbrigðiskerfið eða hvort stefnt er að því að útiloka öll smit í landinu.

Taka þurfi opnari umræðu um hvort slík markmið eru yfir höfuð raunhæf og hve langt fólkið í landinu sé tilbúið að ganga til að ná slíkum markmiðum og hve lengi það þoli slíkar aðgerðir.