Veðurspá gerir ekki ráð fyrir úrkomu næstu daga sem breyta muni því að jarðvegur verði áfram þurr og því er áframhaldandi hætta á sinu- og gróðureldum á því svæði þar sem óvissustig er í gildi.

„Á fimmtudag og föstudag er hins vegar spáð skúrum. Sú úrkoma mun hins vegar ekki ná að bleyta upp í jarðveginum að neinu ráði,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni.

„Það er útlit fyrir áframhaldandi næturfrost sem verður til þess að það næst ekki mikil spretta í jarðveginn. Það eru almannavarnir sem sjá um að lýsa yfir óvissustigi og ákvörðun um að breyta því stigi,“ segir Birgir.

Hann segist telja líklegt að óvissustigið muni gilda út vikuna hið minnsta. „Veðurfræðingar eru ekki alveg sammála um horfur svo langt fram í tímann. Það er mjög óvanalegt að það líði svona margir dagar í röð hér á landi án teljandi úrkomu,“ segir Birgir Örn enn fremur.