Lítil breyting er á veðri þessa vikuna og í dag má búast við norðaustanlægri átt á milli 3 til 10 metra á sekúndu. Áfram skýjað og él norðaustanlands en annars yfirleitt léttskýjað.

Svalt er í veðri fyrir norðan og austan, hiti 0 til 5 stig, en 3 til 8 stig á Suður- og Vesturlandi. Næturfrost gerir vart við sig um mest allt land.

„Þrátt fyrir að minni háttar úrkoma hafi fallið á suðvesturhorninu í gær er vert að minnast á gróðureldahættu eftir þurrkatímabil,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. „Undanfarna daga hafa verið eldar og útlit er fyrir að aðstæður breytist lítið.“

Gert er ráð fyrir hægri breytilegri átt á morgun, skýjað með köflum og stöku smá él eða skúrir. Norðlægar og síðar austlægar áttir með þurru og björtu veðri suðvestan- og vestanlands. Hiti 3 til 8 stig, en kringum frostmark norðaustantil.