Sigurður Ingi Jóhannsson innviðarráðherra vill breyta lögum um Jöfnunarsjóð til að í þeim verði hvatar til sameiningar sveitarfélaga. Mörg af smærri sveitarfélögum landsins fá stóran hluta tekna sinna úr sjóðnum.

Samkvæmt áformum ráðherra mun sjóðurinn styðja áfram við veikari byggðir en innbyggðir verða hvatar til sameiningar.

Forsvarsmenn Grýtubakkahrepps hafa verið meðal háværustu gagnrýnenda áformanna. Í umsögn hreppsins segir að lagabreytingarnar hverfist að mestu um sameiningar.

„Ekki er minnst á meginhlutverk sjóðsins, sem er að gera öllum sveitarfélögum kleift að veita íbúum landsins lögbundna þjónustu og eins sambærilega um land allt og kostur er,“ segir þar. Skerðing framlaga leiði af sér veikari byggðir.

Annað sveitarfélag sem gerir athugasemdir er Skagabyggð, sem telur innan við 100 íbúa.

„Það verður að tryggja að ekki verði gengið á rétt minni sveitarfélaga sem ekki hafa náð samningum um að sameinast,“ segir í umsögninni.