Landvernd hefur kvartað til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna ófullnægjandi innleiðingar á EES-tilskipun um lög um mat á umhverfisáhrifum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Í kvörtuninni kemur meðal annars fram að í mörgum tilvikum séu leyfisveitendur mjög lítil sveitarfélög sem geti átt von á umtalsverðum tekjum, sérstaklega þegar um stórar framkvæmdir er að ræða. Í slíkum tilvikum geti leyfisveitendur ekki talist hlutlausir og þar af leiðandi ekki lögbær yfirvöld til að taka afstöðu til leyfa.

Íslenskum lögum um umhverfismat var breytt í júlí í fyrra eftir að EFTA-dómstóllinn hafði komist að þeirri niðurstöðu að EES-tilskipun um umhverfismat hefði ekki verið innleidd með réttum hætti.

Að því er fram kemur í tilkynningu Landverndar lýtur kvörtunin til ESA að því að breytingin hafi ekki verið fullnægjandi, meðal annars vegna þess að lögin áskilji ekki að hlutleysi leyfisveitenda sé tryggt og að þeir eigi ekki verulegra hagsmuna að gæta vegna framkvæmdar eða starfsemi sem veitt er leyfi fyrir.